Innlent

Fann 19 ára gamalt flöskuskeyti í Breiðafirði sem hann skrifaði sjálfur

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá flöskuskeytið gamla.
Hér má sjá flöskuskeytið gamla.
„Þetta er bara magnað, maður á varla til orð,“ segir Kristján Lár Gunnarsson, sjómaður sem búsettur er í Stykkishólmi, um nítján ára gamalt flöskuskeyti sem hann opnaði í gær. Kristján rak upp stór augu þegar hann sá að hann hafði sjálfur tekið þátt í því að skrifa það og setja í sjóinn árið 1995. Með öðrum orðum: Kristján fann sitt eigið nítján ára flöskuskeyti.

„Skeytið var skrifað af nokkrum börnum sem voru saman með foreldrum sínum í eggjaferð í Bjarneyjum í Breiðaferði,“ útskýrir Kristján og vísar þar til ferðar sem var farin af fjölskyldum sem eiga hluta í Bjarneyjum, þar sem egg voru tínd. Í skeytinu er eggjaferðin svokallaða rifjuð upp og það skjalfest hversu mörg egg voru tínd.

Kristján fann flöskuskeytið fyrr í sumar, þegar hann var að tína æðardún í innanverðum Breiðafirðinum. Hann sá reyndar nokkrar flöskur – sem allar fóru í dósapokann – en gerði sér grein fyrir að eitthvað sérstakt væri við þessa nítján ára gömlu appelsínflsöku. „Ég sá flöskuna og hugsaði með mér að þetta gæti verið flöskuskeyti, þannig að ég geymdi hana. En ég opnaði ekki flsökuna, setti hana bara upp í hillu í bílskúrnum mínum. Svo var ég að taka til í bílskúrnum í gær og ákvað að kíkja á skeytið. Og þá kannaðist ég eitthvað við þetta. Þetta er bara ótrúlegt. Hverjar eru líkurnar?“ spyr hann hlæjandi.

Flöskuskeytið fór í sjóinn fyrir nítján árum. „Það eru um tólf kílómetrar frá þeim stað sem við settum það í sjóinn og þar sem ég fann það næstum tuttugu árum seinna. Guð má vita hversu langt það hefur ferðast langt og svo endað þarna.“

Krakkarnir sem voru með Kristjáni í eggjaferðinni svokölluðu eru flestir fluttir í burtu úr hólminum. „Já, en þeir sem voru með mér hafa séð þetta á Facebook núna. Þetta er alveg ótrúlega skemmtilegt,“ segir hann.

Kristján segir að flöskuskeytið – sem var skrifað á eldhúspappír – verði rammað inn. „Þetta fer upp á vegg í húsinu í Bjarneyjum, það er alveg klárt mál.“

Hér að neðan má sjá færslu Kristjáns um málið á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×