Innlent

Fangelsið hálftómt en biðlistinn lengist

Sveinn Arnarsson skrifar
Fangelsið á Hólmsheiði er fyrsta byggingin sem Íslendingar reisa gagngert sem fangelsi á lýðveldistímanum.
Fangelsið á Hólmsheiði er fyrsta byggingin sem Íslendingar reisa gagngert sem fangelsi á lýðveldistímanum. vísir/gva
Af 56 plássum í fangelsinu á Hólmsheiði eru aðeins 30 pláss nýtt. Stendur því nær helmingur fangelsisins auður. Biðlisti fanga eftir afplánun hefur lengst frá því nýtt húsnæði á Hólmsheiði var tekið í notkun. Bygging fangelsisins kostaði tæpir þrjá milljarða króna.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir það langtímaverkefni að vinda ofan af boðunarlistanum sem hefur myndast síðasta áratug. Hann sé þess fullviss að fangelsið á Hólmsheiði muni hafa jákvæð áhrif í þeim efnum.

Páll Winkel, fangelsismálastjóri.vísir/andri marinó
„Pláss er fyrir 56 fanga í fangelsinu miðað við 100 prósent nýtingu. Nýting umfram 90 prósent er hins vegar ekki raunhæf,“ segir Páll.

Hins vegar sé nýtingin um 53 prósent núna. „Um er að ræða fangelsi sem gegnir þrískiptu hlutverki; móttökufangelsi, langtímavistunarfangelsi fyrir konur og gæsluvarðhaldseinangrunarfangelsi,“ segir Páll.

Fangelsið hefur verið tekið í notkun sem langtímavistunarfangelsi fyrir konur auk þess að gegna hlutverki móttökufangelsis. Gæsluvarðhaldshlutverk fangelsisins hefur enn ekki verið virkjað og vistast einangrunarfangar á Litla-Hrauni.

Biðlisti fanga eftir afplánun hefur verið gríðarlega langur síðustu ár og hafa fangar þurft að bíða lengi eftir að afplána dóma sína. Um 450 einstaklingar hafa verið á biðlista síðustu ár eftir afplánun en þessi biðlisti var tómur árið 2007.

Ekki verður hægt að fullnýta fangelsið á Hólmsheiði fyrr en í fyrsta lagi í lok árs þegar viðgerðum á Litla-Hrauni lýkur.

„Gæsluvarðhaldseinangrun hefur ekki verið tekin í notkun en auk þess er mikilvægt að taka nýtt fangelsi í notkun á þeim hraða sem allir ráða við,“ segir Páll. Því sé ekki ráðlegt að fylla fangelsið strax á fyrstu dögum rekstrar.

„Þá þurfum við að eiga laus pláss fyrir sumarið þar sem loka þarf einu fangahúsi á Litla-Hrauni í allt sumar vegna viðhalds. Í því búa 22 fangar og þarf að finna þeim aðrar vistarverur yfir sumarmánuðina.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×