Erlent

Fangelsi og 91 svipuhögg fyrir að dansa með „Happy“

Atli Ísleifsson skrifar
Að sögn verjenda fólksins hlaut meirihluti skjólstæðinga sinna sex mánaða dóm, en einn fékk eins árs dóm.
Að sögn verjenda fólksins hlaut meirihluti skjólstæðinga sinna sex mánaða dóm, en einn fékk eins árs dóm. Vísir/YouTube
Sex Íranir hafa verið dæmdir í allt að eins árs fangelsi og þurfa að þola 91 svipuhögg fyrir að hafa birt myndband af sér þar sem þau dansa við „Happy“, lag bandaríska tónlistarmannsins Pharrell Williams.

Íranirnir þurfa ekki að sitja af sér fangelsisdóminn, haldi þau skilorð næstu þrjú árin.

Í myndbandinu má sjá þrjá menn og þrjár konur þar sem þau dansa á götum og húsþökum í írönsku höfuðborginni Teheran. Rúmlega ein milljón manns hafa horft á myndbandið á YouTube frá því að það var fyrst birt fyrir hálfu ári síðan.

Að sögn verjenda fólksins hlaut meirihluti skjólstæðinga hans sex mánaða dóm, en einn fékk eins árs dóm.

Írönskum yfirvöldum var bent á myndbandið í maí síðastliðinn og var fólkið í kjölfarið handtekið vegna brots á íslömskum lögum landsins sem banna fólki að dansa við fólk af gagnstæðu kyni og konum að koma fram án slæðu.

Í frétt BBC kemur fram að Pharrell Williams segist mjög hryggur vegna málsins og segir það mjög sorglegt að fólkið hafi verið handtekið vegna tilraunar sinnar til að gleðja fólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×