Innlent

Fangar ósáttir með tillögu Alþingis: Líkt og að vera í fangelsi innan fangelsis

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. Vísir/Heiða
Afstaða, félag fanga, lýsir yfir vonbrigðum með þá tillögu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að föngum í lokuðum fangelsum verði gert óheimilt að fara inn í fangaklefa annarra fanga. Í tilkynningu frá félaginu er samvera fanga sögð mikilvæg, sérstaklega í ljósi þess að engin sálfræðiþjónusta sé í fangelsum landsins.

„Afstaða hefur bent fangelsisyfirvöldum ítrekað á að mun fleiri úrræði, og minna íþyngjandi, séu í boði en blátt bann,“ segir í tilkynningunni. „Enda yrði Ísland eitt Norðurlandanna, og líklega Evrópu, sem leyfir ekki samneyti afplánunarfanga nema í sameiginlegu rými. Þessu má líkja við að fangi sé settur í fangelsi innan fangelsis!“

Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar segir að fangelsisyfirvöldum hafi ítrekað verið tilkynnt um barsmíðar og annað ofbeldi meðal fanga án þess að viðkomandi hafi viljað leggja fram kvörtun eða kæru vegna hræðslu.

Í tilkynningunni frá Afstöðu eru stjórnvöld hvött til þess að leita annarra úrræða en banns þar sem ofbeldi í fangelsum sé mjög sjaldgæft. Til dæmis sé hægt að setja læsingar á klefa innanverða, líkt og tíðkist á Norðurlöndunum.

„Þeir sem ekki vilja taka upp betrun í fangelsunum, og stuðla um leið að færri endurkomum í fangelsin, eru ekki með hagsmuni samfélagsins í huga,“ segir í tilkynningunni.

Réttarhöld yfir föngunum Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni fóru fram í byrjun árs, en þeir eru sakaðir um að hafa veist með ofbeldi að öðrum fanga á Litla-Hrauni sem hafi leitt til dauða hans. Þess er beðið að dómur verði kveðinn upp, en saksóknari hefur farið fram á allt að tólf ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×