Innlent

Fangar á Litla-Hrauni telja að brotið sé á þeim

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Í kærunni segir að fangar í öðrum fangelsum en Litla-Hrauni þurfi ekki að stimpla sig inn til þess að eiga rétt á dagpeningum.
Í kærunni segir að fangar í öðrum fangelsum en Litla-Hrauni þurfi ekki að stimpla sig inn til þess að eiga rétt á dagpeningum. fréttablaðið/e.ól
Fangar á Litla-Hrauni telja að brotið sé á þeim með því að þeir fái ekki greidda dagpeninga sem þeim ber á fá samkvæmt lögum, nema þeir skrái sig inn til vinnu.

Einn fanganna kærði málið til Fangelsismálastofnunar. Í kærunni segir að um margra ára skeið hafi það tíðkast á Litla-Hrauni að sumir fangar þurfi að mæta og stimpla sig inn til vinnu til þess að eiga rétt á því að fá dagpeninga greidda. Fangar í öðrum fangelsum þurfi ekki að stimpla sig inn til þess að eiga rétt á dagpeningum.

Það fari gegn lögum um fangelsi og fangavist, en samkvæmt þeim skulu fanga ákvarðaðir dagpeningar ef hann er ekki settur til vinnu. Þetta fari gegn jafnræðisreglu.

Páll Winkel fréttablaðið/andri marínó
„Ástæða þess að fangar á Litla-Hrauni þurfa að stimpla sig inn er sú að við reynum að halda lámarksvirkni. Fangar sem ekki nenna eða ekki geta unnið þurfa þá í það minnsta að fara á fætur og láta vita af sér,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri og bætir við að það sé öllum hollt að fara á fætur einu sinni á dag.

Páll segir að reglurnar eigi einungis við á Litla-Hrauni vegna þess að í hinum fangelsunum séu fangar ýmist í námi eða vinnu.

„Það reynir lítið á þetta í öðrum fangelsum. Til þess að tryggja jafnræði væri þó hugsanlegt að bregðast við þessari kvörtun með því að taka þetta upp í hinum fangelsunum,“ segir Páll. „Það verður alveg skoðað.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×