Erlent

Fallúja komin úr höndum ISIS

Bjarki Ármannsson skrifar
ISIS lagði borgina undir sig í janúar árið 2014 en ríkisstjórn Íraks hefur unnið að því að endurheimta hana frá því í maí.
ISIS lagði borgina undir sig í janúar árið 2014 en ríkisstjórn Íraks hefur unnið að því að endurheimta hana frá því í maí. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Íraks hvatti í dag landsmenn alla til að fagna eftir að stjórnarher landsins náði aftur borginni Fallúja, sem hryðjuverkasamtökin Íslamskt ríki (ISIS) hafa ráðið yfir undanfarin misseri. 

ISIS lagði borgina undir sig í janúar árið 2014 en ríkisstjórn Íraks hefur unnið að því að endurheimta hana frá því í maí. Íraski herinn sagði í dag að síðasta vígi ISIS í borginni væri fallið og kom Haíder al-Abadí, forsætisráðherra Íraks, fram í sjónvarpi í kjölfarið þar sem hann hélt á lofti íröskum fána fyrir framan helsta sjúkrahús borgarinnar.

Herinn segir að um 1800 liðsmenn ISIS hafi fallið í orrustunni um borgina en tapið er einnig táknrænt fyrir samtökin. Fallúja er aðeins klukkutíma frá höfuðborginni Bagdad og þykir mjög mikilvæg hernaðarlega.

Tugþúsundir almennra borgara hafa flúið átökin í Fallúja að undanförnu og að sögn hjálparsamtaka á svæðinu dvelja mörg þeirra enn úti í hitanum, börn og eldra fólk þeirra á meðal.

Fallúja var fyrsta stóra vígið sem ISIS lagði undir sig en næsta markmið íraska hersins hlýtur að vera að endurheimta borgina Mósúl, næststærstu borg landsins, þar sem ISIS hefur ráðið ríkjum frá árinu 2014. Hernaðaraðgerðir til að ná völdum í borginni á ný hafa staðið yfir frá því í mars.  ​

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×