Íslenski boltinn

Fallslagur í Grafarvogi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjölnismenn hafa verið í miklum vandræðum á undanförnum vikum.
Fjölnismenn hafa verið í miklum vandræðum á undanförnum vikum. Vísir/Valli
Þrír leikir fara fram í Pepsi-deild karla í kvöld. FH sækir Víking heim, Fram tekur á móti KR í Laugardalnum og Fjölnir og Keflavík mætast á Fjölnisvelli. Það verður mikið undir í síðastnefnda leiknum, enda bæði lið í bullandi fallbaráttu. Keflvíkingar sitja í 7. sæti deildarinnar með 18 stig, en Fjölnismenn í 10. sæti með 15 stig, jafn mörg og Fram sem situr í 11. og næstsíðasta sæti.

Bæði lið byrjuðu tímabilið af krafti. Fjölnismenn byrjuðu á því að vinna öruggan sigur á Víkingi í nýliðaslag og í annarri umferð gerðu þeir góða ferð norður yfir heiðar og unnu 1-2 útisigur á Þór. Þessum tveimur sigrum fylgdu fjögur jafntefli í röð, gegn Val, Breiðabliki, KR og Keflavík.

Keflvíkingar unnu fyrstu þrjá leiki sína, gegn Þór og Breiðabliki á heimavelli og Val á útivelli. Liðið beið sinn fyrsta ósigur í 4. umferð gegn KR, en í næstu umferð gerðu Keflvíkingar góða ferð í Hafnarfjörðinn og náðu í jafntefli gegn FH og fylgdu því svo eftir með því að gera jafntefli gegn Fjölni á heimavelli.

Eftir sex umferðir sátu Keflvíkingar í 3. sæti með 11 stig, aðeins þremur stigum á eftir toppliði FH. Fjölnismenn voru tveimur sætum neðar með tíu stig, jafn mörg og Íslandsmeistarar KR. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Fjölnismenn hafa aðeins fengið fimm stig í síðustu tíu leikjum. Eini sigurinn á þessu tímabili kom gegn Þór á Fjölnisvelli, 27. júlí, en þá voru liðnir 80 dagar frá síðasta sigri liðsins í deildinni. Fjölnir hefur aðeins fengið 0,5 stig í síðustu tíu leikjum, samanborið við 1,7 í fyrstu sex leikjunum. Þá hefur Grafarvogsliðið fengið á sig 2,2 mörk að meðaltali í leik í síðustu tíu umferðum, en Þórður Ingason, markvörður liðsins, fékk aðeins á sig sex mörk í fyrstu sex deildarleikjunum.

Uppskeran er álíka rýr hjá Keflvíkingum, en þeir hafa aðeins náð í sjö stig í síðustu tíu leikjum. Eini sigurinn á þessu tímabili kom gegn Fylki á útivelli í 9. umferð, en það er jafnframt eini sigur Keflvíkinga í síðustu 13 deildarleikjum.

Eftir jafnteflið í fyrri leik Fjölnis og Keflavík versnaði gengi liðanna til mikilla. Það er spurning hvort svipuð breyting verði á gengi liðanna eftir leik kvöldsins, en ljóst er að bæði lið þurfa sárlega á öllum þremur stigunum sem eru í boði í kvöld að halda.

Hægt verður að fylgjast með öllum leikjum kvöldsins í beinni textalýsingu á Vísi, auk þess sem leikur Víkings og FH, sem hefst klukkan 18:00, verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Sautjánda umferðin verður svo gerð upp í Pepsi-mörkunum sem hefjast klukkan 22:15 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×