Erlent

Fallist hefur verið á 2 vikna vopnahlé

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tveggja vikna vopnahlé á að hefjast í Sýrlandi í dag, samkvæmt hugmyndum sem Rússland og Bandaríkin kynntu í byrjun vikunnar.

Bæði stjórnarher Bashars al Assad forseta landsins og nærri hundrað hópar uppreisnarmanna hafa fallist á vopnahléið. Samkomulagið nær þó ekki til hryðjuverkasamtaka á borð við Íslamska ríkið (DAISH) og al Nusra-fylkinguna, sem hafa stóra hluta landsins á sínu valdi.

Uppreisnarmenn tóku fram, þegar þeir gáfu samþykki sitt í gær, að hvorki stjórnarherinn né bandamenn hans mættu gera árásir undir því yfirskini að verið væri að berjast gegn hryðjuverkasamtökum.

Allt eftirlit með vopnahléinu verður flóknara vegna þess að al Nusra-samtökin, sem tengjast al Kaída, hafa átt í margvíslegu samstarfi við aðra hópa uppreisnarmanna, sem þykja hófsamari og eru með í vopnahléinu.

Ekki síst þykir hætta á því að rússneski herinn, sem hefur stutt stjórn Assads með loftárásum á upp­reisnar­menn, haldi áfram árásum sínum og geri þá ekki frekar en hingað til alltaf skýran greinarmun á því hvort sprengjurnar lendi á DAISH-liðum eða uppreisnarhópum, sem ekki hafa verið flokkaðir sem hryðjuverkasamtök.

Átökum og loftárásum var haldið áfram af fullum krafti í Sýrlandi í gær, daginn áður en vopnahléið átti að hefjast. Meðal annars gerðu Rússar óvenju harðar loftárásir á svæði uppreisnarmanna austan við höfuðborgina Damaskus og víðar. Stjórnarherinn gerði einnig harðar loftárásir.

„Það er eins og þeir vilji beygja uppreisnarmenn á þessum svæðum eða skora einhver stig áður en vopnahléið hefst,“ hafði franska fréttastofan AFP eftir Rami Abdel Rahman, sem er yfirmaður mannréttindasamtakanna SOHR sem hafa fylgst grannt með átökunum í Sýrlandi. Samtökin hafa aðsetur í Bretlandi en skammstöfunin stendur fyrir The Syrian Observatory for Human Rights, eða Sýrlenska mannréttindaeftirlitið.

Bæði Barack Obama Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín forseti Rússlands fögnuðu því að stjórn Sýrlands og stjórnarandstæðingar skyldu hafa fallist á að hætta að berjast.

Pútín tók þó fram að rússneski herinn myndi halda áfram að gera árásir á hryðjuverkamenn. Og Obama sagði augljóst að bardagar í Sýrlandi myndu halda áfram, enda væru hryðjuverksamtökin ekki aðilar að samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×