Skoðun

Falda aflið er 90 prósent fyrirtækja landsins

Birgir Bjarnason skrifar
Þrátt fyrir að 90% fyrirtækja á Íslandi séu í hópi minni eða meðalstórra fyrirtækja hefur þessi hópur mætt afgangi við stefnumótun stjórnvalda síðustu ár. Hagvöxtur lætur á sér standa. Það þarf nýja stefnu. Tími er kominn til að beina kröftum að því falda afli sem býr í minni og meðalstórum fyrirtækjum.

Félag atvinnurekenda ýtir þessa dagana úr vör átaki sem snýr að þessum fyrirtækjum. Átakið er ákall til stjórnvalda um að tryggja þessum fyrirtækjum góð og uppbyggjandi skilyrði þannig að þau megi dafna og þroskast á sama tíma og þau styrkja undirstöður þjóðfélagsins.

FA hefur dregið fram tólf atriði í tillögum sem eiga að móta samvinnuvettvang þar sem aðilar geta skipst á skoðunum og mótað stefnu til framtíðar í þágu minni og meðalstórra fyrirtækja.

Innan vébanda FA eru 180 fyrirtæki með um fjögur þúsund manns í vinnu. Með réttum breytingum nýtum við bjargráðin sem felast í þeim. Með því að styðja við átak FA geta enn fleiri fyrirtæki haft jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og um leið gjörbylt starfsumhverfi sínu.

Takmörk á eignarhaldi banka á fyrirtækjum, skilvirkari fjármögnunarleiðir, aðgerðir gegn kennitöluflakki, lækkun tryggingagjalds og afnám vörugjalda eru aðeins nokkur þeirra atriða sem við munum leggja áherslu á. Nánari útlistanir má sjá á atvinnurekendur.is auk þess sem unnt verður að fylgjast með framvindu einstakra mála á hverjum tíma.

Tökum höndum saman. Við erum góð í því sem þjóð. Skjótum styrkum stoðum undir samfélagið sem hægt er að byggja á til framtíðar. Þegar einu verkefni er lokið tekur annað við. Við munum ekki sitja auðum höndum þrátt fyrir að markmiðum verði náð heldur setja okkur ný markmið. Við hjá FA vonum að sem flestir sjái hag í því að styðja við þau verkefni sem hverju sinni eru í farveginum.




Skoðun

Sjá meira


×