Enski boltinn

Falcao: Finn ekki fyrir pressu að skora mörk fyrir Chelsea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Falcao gerði lítið í leiknum um Samfélagsskjöldinn.
Falcao gerði lítið í leiknum um Samfélagsskjöldinn. vísir/getty
Kólumbíski framherjinn Radamel Falcao segir að það sé ekki pressa á honum að skora mörk fyrir Chelsea.

„Mér líður mjög vel og er fullur sjálfstrausts. Ég finn ekki fyrir pressunni að skora,“ sagði Falcao sem leikur með Chelsea á komandi tímabili á láni frá Monaco.

„Framherjar vilja alltaf skora mörk en ég er rólegur. Mörkin munu koma og við erum með frábæra framherja í okkar röðum.

„Diego Costa og Loic Rémy eru báðir mjög góðir fyrir framan markið. Það er heilbrigð samkeppni um sæti í byrjunarliðinu og svo er það undir þjálfaranum komið hver spilar.“

Falcao náði sér engan veginn á strik með Manchester United á síðasta tímabili og skoraði aðeins fjögur mörk í 26 deildarleikjum.

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, ákvað samt að gefa honum annað tækifæri á Englandi og vonast væntanlega eftir fleiri mörkum frá Kólumbíumanninum en hann gerði hjá United.

Falcao spilaði seinni hálfleikinn í 1-0 tapi Chelsea fyrir Arsenal í leiknum um Samfélagasskjöldinn á sunnudaginn en lítt áleiðis.

Chelsea hefur titilvörn sína í ensku úrvalsdeildinni gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea á laugardaginn. Falcao kemur væntanlega við sögu í þeim leik þar sem óvissa er með þátttöku Diego Costa vegna meiðsla aftan í læri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×