Innlent

Fagnar því að staðið sé við fyrri áætlanir um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Páll Matthíasson.
Páll Matthíasson. mynd/lsp
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, fagnar því að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé staðið við fyrri áætlanir um að nýr meðferðarkjarni spítalans verði risinn árið 2023 en þetta kemur fram í nýjum pistli forstjórans á vef Landspítalans. Páll óskar þar nýjum heilbrigðisráðherra, Óttari Proppé, velfarnaðar í starfi og þakkar fráfarandi heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, fyrir samstarfið en Kristján er nú orðinn menntamálaráðherra.

„Við munum vafalaust eiga áframhaldandi samstarf enda sinnir Landspítali miklu hlutverki á sviði mennta og vísinda í samstarfi við Háskóla Íslands og fleiri skóla. Það hlutverk eykst ár frá ári en á nýliðnu ári sinntu 1.755 nemar hluta síns náms á Landspítala, samanborið við 1.193 árið 2010,“ segir í pistli Páls en hann víkur svo að stjórnarsáttmálanum:

„Í stjórnarsáttmálanum er m.a. vikið að uppbyggingu Landspítala við Hringbraut og er rétt að fagna því að fyrri áætlanir um að meðferðarkjarni verði risinn árið 2023 standa. Þá er tiltekið að aukinn þungi verði settur í uppbyggingu í öldrunarþjónustu, sérstaklega hvað varðar heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Markmið ríkisstjórnarinnar um háskóla snýr að því að efla samvinnu og samstarf íslenskra háskóla- og vísindastofnana og að skólarnir standist alþjóðlega samkeppni. Þá má vænta þess að myndarlega verði stutt við rannsóknir og þróun í landinu.

Afar mikilvægt er að þessara áforma sjái stað strax á fyrstu mánuðum ríkisstjórnarinnar og má raunar vænta þess enda mun ríkisfjármálaáætlun, sem endurspeglar raunveruleg áform stjórnarflokkana, koma fram þann 1. apríl næstkomandi.“

Þegar ný ríkisstjórn var kynnt í vikunni kom fram að mikil áhersla verði lögð á heilbrigðismál. Fyrsti kaflinn í stjórnarsáttmálanum fjallar einmitt um heilbrigðismál og þá sagði Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, að það væri merki um hversu mikil áhersla væri á þennan málaflokk að einn formaður stjórnarflokkanna færi fyrir heilbrigðisráðuneytinu.

 

Pistil Páls má sjá í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

Óttast ekki óvinsæla ráðuneytið

Óttarr Proppé segir það mikið styrkleikamerki að í stól heilbrigðisráðherra hafi sest formaður eins stjórnarflokkanna og sé það til marks um að ný ríkisstjórn leggi ríka áherslu á málaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×