Viðskipti innlent

Fáfnir Offshore tapar 50 milljónum

Ingvar Haraldsson skrifar
Polarsyssel er í útleigu hjá sýslumanninum á Svalbarða níu mánuði á ári.
Polarsyssel er í útleigu hjá sýslumanninum á Svalbarða níu mánuði á ári. mynd/fáfnir
Olíuvinnslufyrirtækið Fáfnir Offshore tapaði 3,5 milljónum norskra króna á síðasta ári, jafnvirði 50 milljóna íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Í ársreikningnum kemur fram að síðasta ár hafi verið fyrsta rekstarár Fáfnis sem hafi hafið rekstur í maí. Um haustið fékk félagið afhent dýrasta skip Íslandssögunnar, þjónustuskipið Polarsyssel, sem bókfært er á 334 milljónir norskra króna, um 5 milljarða íslenskra króna. Verkefnum fyrir olíuvinnsluskip hefur fækkað verulega frá því að olíuverð tók að falla sumarið 2014. Verð á tunnu af Brent hárolíu stendur nú í 38 dollurum á tunnu en var ríflega 110 sumarið 2014, um það leiti sem Fáfnir hóf rekstur.

Fáfni tókst engu síður að tryggja að Polarsyssel fengi viðbótarsamning við sýslumanninn á Svalbarða. Skipið mun nú þjónusta sýslumannsembættið níu mánuði á ári í stað sex mánaða áður. Með viðbótinni er áætlað að tekjur Fáfnis af leigu Polarsyssel nemi um 840 milljónum íslenskra króna á ári. Tekjur Fáfnis á síðasta ári námu hálfum milljarða króna.

Fáfnir er með annað enn stærra og dýrara olíuþjónustuskip í smíðum en afhendingu þess hefur verið frestað nokkrum sinnum vegna erfiðra markaðsaðstæðna, nú síðast fram til ársins 2017.

Eignir Fáfnis voru bókfærðar á tæpa 5,8 milljarða króna um síðustu áramót, skuldir á 2,9 milljarða. Þá hafa hluthafar Fáfnis lagt 2,9 milljarða króna af eigið fé inn í félagið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×