Innlent

Færri deyja úr krabbameini og nýgengi lækkar

Þórdís Valsdóttir skrifar
vísir/Vilhelm
Nýgengi krabbameina og dánartíðni vegna þeirra hefur lækkað hjá báðum kynjum á undanförnum árum.

Með nýgengi er átt við tíðni greininga á krabbameini.

Til ársins 2010 var stöðug hækkun á nýgengi krabbameina. Dánartíðni var áður fremur stöðug en hefur frá aldamótum lækkað töluvert.

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri Krabbameinsfélagsins, segir að um sé að ræða óvæntan viðsnúning í þróun krabbameina hér á landi.

Lára G. Sigurðardóttir, fræðslustjóri Krabbameinsfélags Íslands.


„Um 2009 hafði tíðnin verið að hækka um 1 prósent á ári og séð var fram á að þróunin yrði þannig áfram. Núna sjáum við að sú spá er ekki að rætast,“ segir Lára.

Stærsti hluti lækkunar dánartíðni hjá konum er meðal þeirra sem eru með brjóstakrabbamein en þriðjungs lækkun hefur orðið á síðustu þrjátíu árum. Rekja má lækkunina til leitarstarfs Krabbameinsfélagsins sem og mikilla framfara í meðferð. 

Hjá körlum munar mest um tuttugu prósenta lækkun á dánartíðni af völdum krabbameina í lungum og blöðruhálskirtli. 

Þar má þakka öflugu tóbaksvarnarstarfi undanfarinna ára og mikilli aukningu skurðaðgerða þar sem blöðruhálskirtillinn er fjarlægður þennan góða árangur.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. maí. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×