Erlent

Færeyjar refsa Sea Shepherd

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bátur Sea Shepherd, sem dómstóll Færeyja hefur nú gert upptækan. Merki samtakanna er sjóræningjafáni.
Bátur Sea Shepherd, sem dómstóll Færeyja hefur nú gert upptækan. Merki samtakanna er sjóræningjafáni. Mynd/Sea Shepherd.
Dómstóll Færeyja dæmdi í gær umhverfisverndarsamtökin Sea Shepherd til greiðslu fjársektar og gerði bát þeirra upptækan fyrir að trufla grindhvalaveiðar og fyrir að óhlýðnast fyrirmælum sýslumanns og lögreglu sumarið 2015. Fulltrúar Sea Shepherd mættu ekki í réttinn og gripu ekki til varna, þrátt fyrir að hafa verið birt ákæran með lögformlegum hætti.

Samtökin sem lögaðili töldust hafa brotið gegn grindalögum Færeyja sem og refsilögum þann 12. ágúst 2015 þegar meðlimir þeirra sigldu ítrekað á miklum hraða í kringum og þvert í gegnum grindhvalavöðu á Sandavogi í því skyni að snúa henni aftur til hafs. Um leið hafi sjómenn á öðrum bátum við löglegar grindhvalaveiðar verið settir í hættu. Jafnframt voru Sea Shepherd-samtökin gerð ábyrg fyrir því að fimm meðlimir þeirra reyndu ítrekað að vaða út í fjöru til að reka hvalina út þrátt fyrir bann lögreglu.

Sektarfjárhæðin nemur um 3,5 milljónum íslenskra króna. Verðmæti bátsins, sem lagt var hald á, er áætlað um fjórar milljónir króna, en hann er svokallaður ribb-bátur. Jafnframt voru samtökin dæmd til að greiða allan sakarkostnað en dóminn má lesa hér. 

Sea Shepherd-samtökin, sem hafa sjóræningjafána að merki sínu, hafa tvívegis áður verið dæmd og sektuð fyrir brot gegn grindalögum Færeyja. Þau höfðu árin 2014 og 2015 reynt að hindra grindhvalaveiðar en án árangurs. Lögþing Færeyja skerpti þá á grindalögum og er það talið hafa valdið því að Sea Shepherd-menn létu ekki sjá sig í Færeyjum í ár.

Sea Shepherd-samtökin, sem Paul Watson stofnaði, eru þekktust á Íslandi fyrir að hafa sökkt tveimur hvalbátum í Reykjavíkurhöfn í nóvember árið 1986 og fyrir skemmdarverk í hvalstöðinni í Hvalfirði.


Tengdar fréttir

Landhelgisgæslan fylgist með ferðum Sea Shepherd

Skip Sea Sheperd-samtakanna er á leið hingað til lands í þeim tilgangi að spilla fyrir hvalveiðum Íslendinga. Paul Watson, leiðtogi samtakanna, segir liðsmenn þeirra ætla að leggja líf sitt að veði til að koma í veg fyrir dráp á hvölum. Landhelgisgæslan fylgist með ferðum Sea Sheperd.

Átök hvalveiðimanna og liðsmanna Sea Shepherd

Hvalverndarsinnar segja japanska hvalveiðimenn hafa slasað tvo úr þeirra hópi með járnplötum og golfkúlum þegar sló í brýnu milli milli þeirra í Suðuríshafi í gær. Hvalverndarsinnar voru þá að trufla veiðar. Japönsku hvalveiðimennirnir neita sök og segjast bara hafa sprautað vatni á þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×