Fótbolti

Færeyingar hoppuðu upp um 82 sæti á FIFA-listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Færeyingar fagna hér sigri á Grikkjum.
Færeyingar fagna hér sigri á Grikkjum. Vísir/AFP
Færeyingar unnu Grikki óvænt í undankeppni EM á dögunum og þessi sigur er heldur betur að telja fyrir liðið sem ríkur upp styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Færeyska landsliðið er nú í 105. sæti FIFA-listans en Færeyingar voru í 187. sæti á októberlistanum sem var langversta staða liðsins á þessu ári.

Fróði Benjaminsen, fyrrum leikmaður Fram, tryggði Færeyjum 1-0 sigur á Grikklandi í Aþenu og með sigrinum lyftu Færeyingar sér upp fyrir Grikki í riðlinum en Grikkir sem sitja á botni F-riðils með eitt stig.

Claudio Ranieri, landsliðsþjálfari Grikkja var rekinn eftir tapið en Grikkir féllu niður um sjö sæti á listanum og eru núna í 25. sæti.

Aðrar þjóðir sem hoppuðu upp um mörg sæti á nýja FIFA-listanum voru Jamaíka (71. sæti, upp um 42 sæti), Kúba (79. sæti, upp um 33), San Marínó (180. sæti, upp um 28), Haíti (68. sæti, upp um 25), Liechtenstein (130. sæti, upp um 25) og Tæland (144. sæti, upp um 21).

San Marínó náði jafntefli á móti Eistlandi og það sá til þess að þeir komust upp úr botnsæti listans í fyrsta sinn í sex og hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×