Erlent

Færeyingar halda upp á Ólafsvökudaginn

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Þórshöfn segir nóttina hafa verið líflega þar sem sjúkrabíll hafi verið sendur átta ferðir í bæinn eftir fólki. Einn maður var handtekinn vegna óláta.
Lögregla í Þórshöfn segir nóttina hafa verið líflega þar sem sjúkrabíll hafi verið sendur átta ferðir í bæinn eftir fólki. Einn maður var handtekinn vegna óláta. Vísir/Getty
Færeyingar fagna Ólafsvökudeginum í dag þar sem Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, mun setja nýtt lögþingsár.

Mikil hátíðarhöld fylgja Ólafsvökunni og segir lögregla í Þórshöfn að nóttin hafi verið lífleg þar sem sjúkrabíll hafi verið sendur átta ferðir í bæinn eftir fólki. Einn maður var handtekinn vegna óláta og sendur til Klaksvíkur til að sofa áfengisvímuna af sér.

Lögmaðurinn mun flytja stefnuræðu sína þar sem hann lítur yfir síðasta ár og fer yfir helstu löggjafarbreytingar sem farið verður í á næsta lögþingsári. Á vef Kringvarps segir að Johannesen muni í ræðu sinni segja það vera bjart framundan í Færeyjum.

Fyrir stefnuræðu lögmanns verður gengið í Hafnarkirkju með lögmann, forseta þings og biskup fremsta í flokki. Theodor Eli Dam Olsen prestur messar og að athöfn lokinni verður aftur haldið í þinghúsið þar sem kór flytur lög og lögþingið verður sett.

Ólafsvaka er þjóðhátíð Færeyinga og fer fram 28. og 29. júlí, en 29. júlí er sjálfur Ólafsvökudagurinn. Færeyingar minnast þar Ólafs Haraldssonar konungs sem barðist fyrir kristnitöku í Noregi og féll í orrustu árið 1030. Ólafur var tekinn í dýrlingatölu ári síðar og hlaut því nafnið Ólafur helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×