Íslenski boltinn

Færa bikarúrslitaleikinn fyrir stuðningsmenn ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sóley Guðmundsdóttir og félagar í ÍBV eru að fara í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð.
Sóley Guðmundsdóttir og félagar í ÍBV eru að fara í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð. Vísir/Eyþór
Knattspyrnusamband Íslands hefur gert óvænta breytingu á dagsetningu bikarúrslitaleiks kvenna í fótbolta sem átti að fara fram á föstudagskvöldi en fer nú fram á laugardegi.

Í úrslitaleik Borgunarbikars kvenna mætast nú lið Stjörnunnar og ÍBV. Bæði lið eru svo gott sem búin að missa af Íslandsbikarnum til Þór/KA og þetta er því þeirra aðalvon að vinna titil í sumar.

KSÍ hefur ákveðið að færa úrslitaleik Borgunarbikars kvenna af föstudeginum 8. september til laugardagsins 9. september. Leikurinn fer fram klukkan 17.00 þennan laugardag.

Í frétt á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands kemur fram að þetta sé gert til að auðvelda stuðningsmönnum ÍBV að mæta á leikinn.

Það vilja allir fá Eyjamenn á völlinn enda fáir búnir að gleyma þeirri frábæru stemmningu sem þeir bjuggu til á bikarúrslitaleik karla þar sem ÍBV tryggði sér bikarinn með 1-0 sigri á FH.

Bæði Eyjaliðin komust í bikarúrslitaleikinn annað árið í röð og vonast Eyjastúlkur eftir því að geta breytt silfri í gull eins og strákarnir gerðu. Eyjakonur töpuðu á móti Breiðabliki í bikarúrslitaleiknum í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×