Enski boltinn

Fær stuðning úr öllum áttum: Brexit, Trump og nú Ranieri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Claudio Ranieri hefur fengið stuðning úr ýmsum áttum eftir að hann var rekinn frá Leicester City í gær.

Ranieri gerði Leicester að Englandsmeisturum í fyrsta sinn í sögu félagsins í fyrra en nú aðeins níu mánuðum seinna er Ítalinn atvinnulaus.

Kollegar Ranieris hafa margir lýst yfir furðu sinni á ákvörðun forráðamanna Leicester, m.a. Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, og José Mourinho, stjóri Manchester United.

„Er ég hissa að svona hlutir geti gerst?“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

„Það hafa nokkrar sérkennilegar ákvarðanir verið teknar 2016 og 2017. Brexit, Trump, Ranieri,“ sagði Klopp en hans menn mæta Leicester á mánudaginn.

Mourinho mætti í bol með skammstöfuninni CR á blaðamannafund fyrir úrslitaleik deildarbikarsins í dag.

„Þetta er smá virðingarvottur um mann sem skrifaði fallegastu söguna í ensku úrvalsdeildarinnar og ætti skilið að heimavöllur Leicester yrði nefndur eftir að honum,“ sagði Mourinho.

Hann var sjálfur rekinn sjö mánuðum eftir að hann gerði Chelsea að Englandsmeisturum 2015. Hann segir ekki hægt að bera hans stöðu saman við stöðu Ranieris.

„Mér fannst það vera stórt og neikvætt þegar ég var rekinn á síðata tímabili. En núna geri ég mér grein fyrir að það voru bara smámunir miðað við það sem gerðist fyrir Ranieri,“ sagði Mourinho.


Tengdar fréttir

Koss dauðans stóð undir nafni

Claudio Ranieri er ekki lengur knattspyrnustjóri því hann var eins og flestir vita rekinn í gærkvöldi aðeins níu mánuðum eftir að hann gerði Leicester City að enskum meisturum.

Ranieri rekinn

Breskir fjölmiðlar greina frá því að Leicester City sé búið að reka knattspyrnustjórann Claudio Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×