Enski boltinn

Fær Stóri Sam síðbúna jólagjöf á Brúnni?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sam Allardyce á erfiðan leik fyrir höndum gegn toppliði Chelsea.
Sam Allardyce á erfiðan leik fyrir höndum gegn toppliði Chelsea. Fréttablaðið/Getty
Áhugamenn um ensku úrvalsdeildina í fótbolta fara ekki í jólaköttinn í ár frekar en fyrri daginn, en eins og alltaf verður boðið upp á heila umferð á öðrum degi jóla.

Veislan hefst skömmu fyrir eitt þegar topplið Chelsea tekur á móti West Ham á Stamford Bridge. West Ham hefur komið liða mest á óvart í deildinni og er með 31 stig eftir sautján umferðir.

Á síðustu leiktíð náði Stóri Sam markalausu jafntefli á Brúnni með West Ham-liðið og fékk skömm í hattinn frá José Mourinho fyrir leiðinlega og varnarsinnaða knattspyrnu. Allardyce hló að Portúgalanum og mun sækja stig í eintölu eða fleirtölu að þessu sinni með ráðum og dáð.

Manchester United tekur á móti Newcastle og reynir að halda í við efstu liðin, en City-menn eiga útileik gegn West Bromwich Albion. Arsenal fær QPR í heimsókn í síðdegisleiknum og Liverpool heimsækir Burnley. Brendan Rodgers og lærisveina hans er farið að þyrsta í sigur eftir fjóra úrvalsdeildarleiki án þess að fá þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×