Golf

Fær rúman milljarð ef hann hættir í golfi

Anthony Kim í sínu síðasta móti árið 2012.
Anthony Kim í sínu síðasta móti árið 2012. vísir/getty
Kylfingurinn Anthony Kim stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun.

Það hefur ekkert heyrst frá þessu undrabarni í golfíþróttinni í tvö ár en þá tók hann sér langt frí vegna meiðsla.

Hann þarf að gera upp við sig hvort hann vilji halda áfram í golfinu eða leggja kylfurnar á hilluna vegna meiðsla.

Ef hann hættir þá fær hann tryggingabætur upp á 1,2 milljarð króna. Hann fleygir þeim peningum frá sér ef hann tekur aftur þátt í móti.

Hinn 29 ára gamli Kim var búinn að vinna sér inn rúmar 550 milljónir í verðlaunafé á ferlinum áður en hann meiddist.

Hann er sagður vera kominn með mikið sítt hár og líta út eins og róni. Hann á aftur á móti nóg af peningum og lifir nokkuð hátt. Kim er sagður kunna vel við það og því telja margir að hann muni taka peningana og hætta að spila.

Menn áttu von á miklu frá Kim á sínum tíma. Árið 2008 sagði Mark O'Meara að Kim hefði verið kominn með betri sveiflu en Tiger Woods þegar hann var aðeins 21 árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×