Innlent

Fær milljónir í bætur vegna vinnuslyss

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn var að vinna við uppsetningu á göngupalli við jarðbor þegar að slysið varð.
Maðurinn var að vinna við uppsetningu á göngupalli við jarðbor þegar að slysið varð.
Hæstiréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli manns sem lenti í vinnuslysi árið 2008 og stefndi vinnuveitanda sínum, Jarðborunum hf. Maðurinn hlaut 15% varanlega örorku vegna slyssins.

Héraðsdómur sýknaði Jarðboranir af kröfum mannsins um skaðabætur vegna slyssins og áfrýjaði maðurinn dómnum til Hæstaréttar. Hæstiréttur dæmdi manninum í hag og skulu Jarðboranir greiða honum tæpar 9 milljónir króna í bætur með áföllnum vöxtum og dráttarvöxtum.

Slysið varð þegar maðurinn var ásamt vinnufélaga sínum að koma fyrir göngupalli meðfram jarðbor í eigu Jarðborana. Þurftu þeir að losa um einingar, sem voru fastar við hlið glussastöðvar borsins, og leggja þær niður þannig að þær mynduðu göngupall.

Maðurinn var að fara upp á eina einingu göngupallsins, sem var búið að leggja niður meðfram bornum, þegar hann greip með hægri hönd í aðra einingu sem átti eftir að leggja niður. Þegar hann tók í þá einingu féll hún hins vegar niður með þeim afleiðingum að vinstri hönd mannsins lenti á milli þeirrar einingar og einingarinnar sem búið var að leggja niður.

Það hafi ekki átt að vera hægt þar sem einingin átti að vera föst. Segir í dómi Hæstaréttar að einingin hafi losnað vegna þess að pinni sem hélt henni hrökk skyndilega úr stæði sinu. Það hafi ekki átt að geta gerst nema vegna þess að einhver hafi ekki fest hann á tryggilegan hátt.

Hæstiréttur telur sannað, öfugt við Héraðsdóm, að orsakir slyssins megi rekja til saknæmrar vanrækslu starfsmanns eða starfsmanna Jarðborana við að festa umrædda einingu. Fyrir dómi kváðust stefnandi og vinnufélagi hans ekki hafa komið að því verki.

Við ákvörðun bóta lá til grundvallar mat sérfræðings í bæklunar-og handarskurðlækningum. Þar kom fram að varanlega örorka mannsins er 15% og að tímabundið atvinnutjón vegna slyssins hafi verið alls 14 mánuðir.

Dóminn í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×