Enski boltinn

Fær Gylfi einhverjar tilnefningar í valinu á besta marki Swansea?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Gylfa Þór Sigurðssonar á móti Arsenal 2014.
Mark Gylfa Þór Sigurðssonar á móti Arsenal 2014. Vísir/Getty
Næsti leikur Swansea City í ensku úrvalsdeildinni verður sá tvö hundraðasti hjá félaginu í efstu deild á Englandi.

Swansea hefur skorað 241 mark í 199 leikjum og nú vill fólkið á samfélagsmiðlum Swansea City Football Club komast að því hvaða mark stuðningsmenn liðsins telji verða það besta hjá félaginu frá upphafi.

Á fésbókarsíðu og Twitter-síðu Swansea City eru gestir beðnir um að tilnefnda fimm flottustu mörkin að þeirra mati.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur skorað 27 mörk fyrir Swansea í ensku úrvalsdeildinni eða fleiri en nokkur annar. Mörg þessara marka hafa verið af glæsilegri gerðinni og sum þeirra beint úr aukaspyrnu.

Mark hans beint úr aukaspyrnu á móti Arsenal 9. nóvember 2014 hlýtur að koma sterklega til greina en auðvitað hafa leikmenn Swansea skoraði mörg glæsileg mörk.

Nú er að sjá hvort mörk Gylfa fái einhverjar tilnefningar en það er að sjá að menn eru byrjaðir að gefa íslenska miðjumanninum atkvæði. Hver veit nema einhverjir íslenskir stuðningsmenn Swansea City noti nú tækifærið og komi Gylfa á blað.

Það er hægt að gefa Gylfa atkvæði bæði á Twitter með myllumerkinu #Swans200 en eins inn á fésbókarsíðu Swansea City.

Tvö hundraðasti leikur Swansea City í ensku úrvalsdeildinni verður á útivelli á móti Stoke City á næstkomandi mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×