Viðskipti innlent

Fær ekki tvo milljarða frá Seðlabanka Íslands

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heiðar Guðjónsson fjárfestir.
Heiðar Guðjónsson fjárfestir. Vísir/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Seðlabanki Íslands og Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. voru í Hæstarétti í dag sýknuð af tæplega tveggja milljarða króna kröfu félags Heiðars Guðjónssonar, Ursus ehf. Staðfesti Hæstiréttur þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl í fyrra.

Árið 2010 hafði Heiðar í hyggju að kaupa 8,77 prósent í Sjóvá af ESÍ auk þess að eiga kauprétt á öðru eins. Ursus taldi að SÍ og ESÍ hefðu ekki staðið við bindandi kaupsamning sem komist hefði á á milli aðila. Því var hins vegar mótmælt af hálfu bankans að stofnast hefði til bindandi samkomulags.

Á því var byggt til vara að teldist bindandi samningu ekki hafa stofnast að þá hefði Seðlabanki Íslands hlaupið frá kaupunum án málefnalegra og ólögmætra sjónarmiða. Ursus taldi að ESÍ hefði dregið sig í hlé eftir að bankinn kærði félagið fyrir brot á lögum um gjaldeyrismál. Það mál hafi síðar verið fellt niður. 

Niðurstaða dómara var sú að atvik málsins bentu til þess að félagið hefði sjálft, „af fúsum og frjálsum vilja tekið ákvörðun um að segja sig frá söluferlinu áður en bindandi samningur var gerður um kaupin“. Af sömu ástæðu var varakrafa stefnanda ekki tekin til greina.

Úrsús þarf að greiða Seðlabanka Íslands og Eignasafni bankans tvær milljónir króna, hvorum aðila fyrir sig, í málskostnað.

Dóm Hæstaréttar má lesa hér.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×