Innlent

Fær að koma til Íslands í átta daga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Síðustu daga hefur verið fjallað um fólk sem býr utan Schengen svæðisins og fær ekki vegabréfsáritun til að heimsækja ástvini og ættingja hér á Íslandi.

Brynja Dan vakti fyrst athygli á málinu en hún kynntist systur sinni frá Sri Lanka síðasta sumar og langaði að bjóða henni í heimsókn til Íslands. Systirin fékk aftur á móti ekki vegabréfsáritun svo fresta þurfti ferðinni.

Núna loksins hefur hún þó fengið áritunina og er væntanleg til landsins um miðjan mars.

„Þeir taka enga sjénsa. Hún er búin að fá átta daga visa – en það tekur sólarhring að ferðast hingað. Ég þurfti að toga í alla spotta sem ég gat. Það þurfti tvo sendiherra, lögreglu hjá Interpol og dómara hér heima svo þetta gengi upp en já, hún fékk átta daga visa,” segir Brynja.

Brynja er ágætlega tengd inn í íslenska stjórnsýslu sem hún telur hafa orðið til þess að systir hennar fékk vegabréfsáritun.

„Ég er ekki manneskja sem tek nei sem svari. En það eru kannski ekki allir sem hafa tök á því.”

Brynja bjóst við að systir hennar fengi lengri tíma á landinu og veit ekki hvernig það verði næst egar hún vill koma í heimsókn - hvort það verði jafn flókið og erfitt ferli. Hún býst við því.

„En þetta er alla vega byrjunin og vonandi opnar þetta einhverjar dyr og einhverjar leiðir. Við þurfum að breyta ansi miklu í þessu landi fyrst að ástandið er svona.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×