Innlent

Fær 800 þúsund krónur í bætur frá ríkinu

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Karlmaður sat í gæsluvarðhaldi í tæpan mánuð án þess að tækist að sanna tengingu við stórfelldan fíkniefnainnflutning.
Karlmaður sat í gæsluvarðhaldi í tæpan mánuð án þess að tækist að sanna tengingu við stórfelldan fíkniefnainnflutning. Fréttablaðið/Heiða Helgadóttir
Íslenska ríkið þarf að greiða karlmanni átta hundruð þúsund krónur í bætur. Dómur í málinu féll í gær, fimmtudag, í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Karlmaðurinn segist hafa verið handtekinn saklaus. Hann var látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 15. apríl 2012 til 3. maí 2012 og farbanni frá þeim tíma til 14. maí sama ár. Maðurinn hélt því fram að ekki hefði legið fyrir rökstuddur grunur um að hann hefði framið verknað sem fangelsisvist sé lögð við og hann hefði orðið fyrir stórfelldum miska vegna aðfara lögreglunnar en hann var grunaður um að hafa staðið að stórfelldum fíkniefnainnflutningi. Málsatvik eru þau að þann 15. apríl 2012 voru þrír karlmenn handteknir grunaðir um innflutning á fíkniefnum til landsins.

Í farangri þeirra fundust tæp níu kíló af amfetamíni. Báru þeir að þeir hafi verið á leið með fíkniefnin að heimilisfangi þar sem karlmaðurinn umræddi býr. Húsið er fjöleignarhús með 35 íbúum.

Lögreglan kom að heimili mannsins sama dag og karlmennirnir þrír voru handteknir, braut upp hurð að heimili hans og handtók hann og eiginkonu hans.

Á heimilinu var einnig þriggja ára dóttir hans sem varð eftir í gæslu vinkonu eiginkonunnar.

Dóminn í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×