Viðskipti innlent

Fækkun eignarhluta fjármálafyrirtækja

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
vísir
Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki hafa náð góðum árangri í að fækka eignarhlutum í fyrirtækjum með starfsemi sem fellur ekki undir almennar starfsheimildir þeirra og einungis er heimilt að stunda tímabundið.

Þetta kemur fram í skýrslu frá fjármálaráðuneytinu um tímabundna starfsemi fjármálafyrirtækja.

Fjármálafyrirtækjum er heimilt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki að stunda tímabundið starfsemi í óskyldum rekstri í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila.

Miðað við stöðuna 1. mars eiga fjármálafyrirtæki hluti í 41 félagi í tímabundinni starfsemi. Félög sem fjármálafyrirtæki eiga minna en tíu prósenta eignarhlut í eru ekki meðtalin í þessari samantekt.

Af umræddum fjölda félaga er 21 félag í yfir 40 prósenta eignarhaldi fjármálafyrirtækis, í 15 félögum er eignarhaldið á bilinu 20 til 40 prósent og í fimm félögum er eignarhaldið tíu til 20 prósent.

Þegar fjöldi eignarhluta fjármálafyrirtækja í félögum í tímabundinni starfsemi þann 1. mars síðastliðinn er borinn saman við fjölda þeirra í nóvember 2011 má sjá að þeim hefur fækkað um 91 félag. Ef þróun síðustu 18 mánaða er skoðuð má sjá að félögum í tímabundinni starfsemi hefur fækkað um 31.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×