Erlent

Fæðingarbletturinn á rassinum reyndist vera geirvarta

David, sem gaf Vísi heimild til að birta myndirnar, segir geirvörtuna ekki vera mikið til vandræða. Hann segist oft fá spurninguna um hvort finni sérstaklega mikið til þegar einhver snerti geirvörtuna, en hann segir svo ekki vera
David, sem gaf Vísi heimild til að birta myndirnar, segir geirvörtuna ekki vera mikið til vandræða. Hann segist oft fá spurninguna um hvort finni sérstaklega mikið til þegar einhver snerti geirvörtuna, en hann segir svo ekki vera
Sænskur maður komst nýlega að því að vöxtur á vinstri rasskinn sem hann hélt að væri fæðingarblettur var í raun geirvarta.

David hafði tekið eftir að bletturinn, sem hafði verið á rassinum árin á undan, hefði stækkað nokkuð skyndilega og lögun hans breyst. Ákvað hann því að leita til læknis. Læknirinn var fljótur að greina vöxtinn sem geirvörtu og áður en læknisheimsókninni lauk voru aðrir læknar farnir að streyma inn á stofuna til að sjá geirvörtuna með berum augum.

David sagði frá reynslu sinni í sænska þættinum Christer och Morgan rapporterar á sænsku ríkisútvarpsstöðinni P3. Sagðist hann vera duglegur að fara á brimbretti og mikið vera í sólinni án þess að bera alltaf á sig sólarvörn. David hafi því leitað til læknis til að athuga hvort í lagi væri með alla fæðingarbletti.

David segir frá því að hann hafi farið inn á stofuna, gyrt niður um sig og beðið lækninn sérstaklega um að skoða blett á rassinum. „Hann var orðinn ansi stór og breytt um lögun síðustu árin,“ sagði David.

Að sögn David skoðaði læknirinn blettinn og byrjaði svo að segja einhverja frasa á latínu sem hann botnaði lítið í.

„Þá reyndist þetta að sjálfsögðu vera geirvarta. Svo kallar hann á læknanema á kandídatsári og allt í einu fer að streyma fólk inn á stofuna með stækkunargler og myndavélar. Þetta sem ég hélt að væri fæðingarblettur var svo geirvarta á rassinum, á vinstri rasskinn.“

David segir að honum þyki það vera mjög sérstakt að vera með geirvörtu á rassinum. „Læknirinn stóð bara og skellihló svo það bergmálaði á göngunum.“

David segir geirvörtuna ekki vera mikið til vandræða. Hann segist oft fá spurninguna um hvort finni sérstaklega mikið til þegar einhver snerti geirvörtuna, en hann segir svo ekki vera. „Hins vegar er hún í beinni línu við venjulegu geirvöruna á vinstri framhlið líkamans. Að sögn lækna er þetta í beinni lóðréttri línu.“

Í lok viðtalsins segist David í gamansömum tón nú íhuga að fá sér gat í geirvörtuna.

Vísir hafði samband við David og fékk góðfúslegt leyfi til að birta myndirnar. David bað jafnframt um að eftirnafn hans kæmi ekki fram.

Mynd/Úr einkasafni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×