Erlent

Faðir Paul Walker lögsækir Porsche

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Walker.
Paul Walker. Vísir/EPA
Faðir leikarans Paul Walker, sem lét lífið í bílslysi árið 2013, hefur ákveðið að höfða mál gegn Porsche vegna dauða sonar síns. Hann segir bílinn ekki hafa búið yfir öryggisbúnaði sem hefði getað bjargað lífi Walker

Faðirinn sem heitir Paul William Walker III, segir að hefði bíllinn verið útbúinn jafnvægisbúnaði, styrktum hurðum og fleiri öryggisatriðum væri sonar hans enn á lífi. Hann fer fram á ótilgreindar bætur.

Paul Walker sem er þekktastur fyrir Fast and Furious myndirnar var farþegi í Porsche Carrera GT sem var í eigu vinar hans, þegar bílnum var ekið á staur. Eldur kom upp í bílnum og létu bæði Walker og vinur hans Roger Rodas lífið.

Dóttir Walker höfðaði mál gegn fyrirtækinu í lok september. Samkvæmt málsgögnum Porsche segir fyrirtækið að slysið hafi verið sök Walker og vinar hans. Bílnum hafi verið breytt og honum hafi ekki heldur verið haldið nægjanlega við.

Sjá einnig: Dóttir Paul Walker kærir Porsche vegna dauða föður síns

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar komust rannsakendur að því á sínum tíma að slysið hefði orðið vegna þess að bílnum hafi verið ekið á miklum hraða en ekki vegna galla eða bilunar í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×