Handbolti

Faðir Arnars Freys: Strákurinn er búinn að massa sig upp

Arnar Björnsson skrifar
„Maður er náttúrulega alveg gríðarlega stoltur af stráknum, hann kom mjög sterkur inn í fyrsta leik,“ segir Arnar Þór Sævarsson, bæjarstjóri á Blönduósi og faðir línumannsins Arnars Freys sem sló í gegn í fyrsta leik Íslands á HM.

Við hittum hann skömmu fyrir Slóvenaleikinn í gær en hann sá tvo fyrstu leikina en fer heim til Íslands í dag. Það vakti athygli að línumaðurinn fagnaði mörkum sínum á sérstakan hátt og benti á föður sinn í stúkunni. Var pabbinn að setja kröfur á strákinn?

„Það er alveg rétt maður er svona að reyna að kenna honum grundvallarreglurnar og setja einhverjar kröfur á hann. Vonandi pikkar hann þetta upp og fer eftir þeim. Hann gerði það gegn Spánverjum svo sannarlega.“

Finnst þér hann hafa tekið miklum framförum?

„Já, hann fór í haust til Kristianstad í Svíþjóð og hann er búinn að vaxa og dafna sem leikmaður. Búinn að massa sig upp og er orðinn mjög sterkur. Framtíðin er björt ef hann heldur rétt á spilunum.“

Heldurðu að hann fari fljótlega til einhvers af stóru liðunum í Evrópu?

„Tíminn verður bara að leiða það í ljós. Hann er hjá mjög góðu félagi, sænsku meisturunum í Kristianstad. Það er alveg ljóst að hann er þar í góðum málum þar sem hann fær að vaxa og dafna.“

Hvernig var að vera í stúkunni gegn Spánverjunum og strákurinn að veifa til þín eftir að hafa skorað?

„Það var bara stórkostlegt, æðislegt. Í íþróttum er það stöðugleikinn sem skiptir máli og vonandi heldur það áfram,“ segir stoltur faðir handboltakappans Arnars Freys Arnarssonar.

Ísland mætir Túnis í þriðja leik sínum á HM í dag klukkan 13:15.

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×