Viðskipti erlent

Facebook þróar „dislike“ möguleika

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. Vísir/AFP
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, segir fyrirtækið nú vinna að því mögulegt verði að „líka ekki“ við færslur á síðunni.

Zuckerberg greindi frá þessu þegar hann svaraði spurningum áhorfenda á samkomu í Kaliforníu. Sagði hann „dislike“ möguleika vera það sem notendur síðunnar hafi einna helst beðið um þegar þeir væru spurðir um hvaða breytingar þeir vildu sjá.

Zuckerberg sagði nauðsynlegt að finna leið að tryggja að slíkur möguleiki yrði ekki notaður til að gera lítið úr færslum fólks.

Í frétt BBC kemur fram að alls séu úthlutuð 4,5 milljarðar „like“ á Facebook á hverjum degi. „Eitt af því sem við höfum hugsað talsvert um er hver sé rétta leiðin til að tryggja að fólk geti betur komið fleiri tilfinningum á framfæri,“ segir Zuckerberg.

Zuckerberg sagði það oft koma fyrir að fólk væri að segja frá sorglegum atburðum í lífi sínu. „Fólk segir oft við okkur að þeim líki ekki við að ýta á „like“ þar sem „like“ sé ekki viðeigandi tilfinning.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×