Erlent

Facebook gerði tilraunir á sjö hundruð þúsund notendum

Facebook gerði tilraunir á notendum sínum árið 2012.
Facebook gerði tilraunir á notendum sínum árið 2012.
Sérstakt rannsóknarlið á vegum Facebook gerði tilraunir á notendum samfélagsmiðilsins árið 2012 þegar það rannsakaði hvort upplýsingarnar í fréttaveitu notenda hefðu áhrif á stöðuuppfærslur þeirra.

Rannsóknin náði til sjö hundruð þúsund notenda. Í henni var upplýsingum í fréttaveitu (e. Newsfeed) notendanna breytt. Annar hópurinn fékk sérstaklega neikvæðar upplýsingar í gegnum fréttaveituna og hinn fékk sérstaklega jákvæðar. Í ljós kom að upplýsingar í fréttaveitunni höfðu marktæk áhrif á stöðuuppfærslur þeirra sem nota Facebook. Þeir sem fengu neikvæðar fréttir í gegnum sína fréttaveitu voru neikvæðari í skrifum sínum á Facebook en aðrir. Og þeir sem fengu jákvæðari fréttir skrifuðu jákvæðari færslur.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences og fór Adam Kramer, starfsmaður Facebook, fyrir rannsóknarliðinu.

Hegðun fólks og upplifun á Facebook hefur verið talsvert rannsökuð. Michigan-háskólinn birti niðurstöður rannsóknar á síðasta ári sem leiddu í ljós að margt ungt fólk varð þunglynt af Facebook-notkun. Rannsóknarlið við Humboldt háskólann í Berlín komst að því að Facebook gerir fólk gjarnan afbrýðisamt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×