Enski boltinn

Fábregas reyndi að hugga brjálaðan Morata eftir að hann var tekinn af velli | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Álvaro Morata gengur svekktur af velli.
Álvaro Morata gengur svekktur af velli. vísir/getty
Álvaro Morata, leikmaður Chelsea, var brjálaður þegar að hann var tekinn af velli í 2-1 sigrinum á móti Burnley í gærkvöldi en hann var þó meira svekktur út í sjálfan sig en aðra.

Spænski framherjinn hefur aðeins skorað eitt mark síðan á öðrum degi jóla og er í heildina búinn að skora ellefu mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelea, byrjaði með Morata og Oliver Giroud saman í framlínunni en samkvæmt Sky Sports er þetta í fyrsta sinn í sjö ár sem Chelsea byrjar með tvo framherja saman í leik.

Enn eina ferðina gekk Morata ekkert að skora og klúðraði hann einu mjög góðu færi. Conte tók hann af velli á 71. mínútu fyrir Eden Hazard og Spánverjanum var ekki skemmt.

Hann lét gremju sína í ljós um leið og hann var kominn út af vellinum og á varamannabekknum var hann verulega pirraður. Cesc Fábregas, samherji hans og samlandi, reyndi með veikum mætti að hugga Morata sem var virkilega pirraður.

Chelsea mætir Southampton í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudaginn og telur Frank Sinclair, sparkspekingur Sky Sports, að þessi frammistaða Morata hafi kostað hann byrjunarliðssæti í leiknum.

„Ég tel að leikmenn eins og Willian og Hazard verði að snúa aftur í byrjunarliðið og þá þarf Conte að velja á milli Giroud eða Morata. Ég myndi alltaf velja Giroud eins og staðan er núna,“ segir Sinclair.

Myndband af pirringi Morata má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×