Enski boltinn

Fabregas ekki öruggur með sæti í byrjunarliðinu þrátt fyrir mörkin tvö gegn Leicester

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fabregas gerði gæfumuninn gegn Leicester.
Fabregas gerði gæfumuninn gegn Leicester. vísir/getty
Þrátt fyrir að Cesc Fabregas hafi skorað tvö mörk fyrir Chelsea í 2-4 sigrinum á Leicester City í 3. umferð enska deildarbikarsins í gær er hann ekki öruggur með sæti í byrjunarliði Lundúnaliðsins. Þetta segir Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea.

Fabregas fékk tækifæri í byrjunarliði Chelsea í gær og nýtti það vel. Staðan eftir venjulegan leiktíma á King Power Stadium var 2-2 en Fabregas tryggði Chelsea sigurinn með tveimur mörkum í framlengingunni.

Það er þó alls óvíst hvort frammistaðan í gær tryggi honum sæti í byrjunarliðinu gegn Arsenal á laugardaginn.

„Ég vil vinna og vel liðið út frá því. Það skiptir ekki máli hvað leikmennirnir heita. Fyrir mér er það mikilvægt að þeir sýni mér að ég gerði rétt með að velja þá,“ sagði Conte eftir sigurinn á Leicester í gær.

„Hver einasti leikmaður í hópnum kemur til greina gegn Arsenal. Það eru þrír dagar í leikinn og leikmennirnir hafa tækifæri til að sannfæra mig.

„Ég er ánægður fyrir hönd Cesc því hann spilaði vel. Hann hefur líka verið frábær á æfingum. Ég er ánægður með viðhorf hans. Ég vil að það sé samkeppni um sæti í byrjunarliðinu.“

Fabregas hefur ekki enn verið í byrjunarliði Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en Conte hefur sett traust sitt á N'Golo Kanté, Nemanja Matic og Oscar í þeim fimm leikjum sem búnir eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×