Körfubolti

Fá tækifæri í kvöld til að sýna hvað þær hefðu gert í bikarúrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úr síðasta leik Keflavíkur og Snæfells. Ariana Moorer sækir en til varnar eru systurnar Gunnhildur og Berglind Gunnarsdætur.
Úr síðasta leik Keflavíkur og Snæfells. Ariana Moorer sækir en til varnar eru systurnar Gunnhildur og Berglind Gunnarsdætur. Vísir/Daníel Þór
Keflavíkurkonur spila í kvöld sinn fyrsta leik sem bikarmeistarar og það er enginn smá leikur því Íslandsmeistarar og fyrrum bikarmeistarar Snæfells koma þá í heimsókn á Sunnubrautina í Keflavík.

Liðin eru í baráttu um deildarmeistaratitilinn við Skallagrím, jöfn að stigum fyrir leikinn með 30 stig hvort eða tveimur stigum minna en topplið Skallagríms.

Leikur Keflavíkur og Snæfells verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3 og hefst útsendingin klukkan 19.05 en leikurinn sjálfur klukkan 19.15.

Keflavík varð bikarmeistari á laugardaginn eftir 65-62 sigur á Skallagrími í úrslitaleiknum. Keflavík var aðeins einu skoti frá því að mæta Snæfellsliðinu í úrslitaleiknum. Skallagrímur vann Snæfell 70-68 í undanúrslitunum þar sem lokaskot Hólmara geigaði en það hefði komið liðinu í úrslitaleikinn.

Snæfellskonur fá því tækifæri í kvöld til að sýna hvað þær hefðu gert í bikarúrslitaleiknum fyrir fjórum dögum síðan.

Þetta er þriðji leikur liðanna á tímabilinu en Snæfell hefur unnið hina tvo þar af þann síðasta leik liðanna í framlengingu í Keflavík.

Vinni Snæfell leikinn í kvöld verður liðin með tveggja stiga forystu á Keflavík auk þess að vera með gulltryggða stöðu í innbyrðisleikjum liðanna í vetur.

Vinni Keflavík leikinn verður staðan orðin 2-1 í innbyrðisleikjum liðanna og því verður innbyrðisstaðan undir í síðasta innbyrðisleik liðanna í Stykkishólmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×