Innlent

Fá ráðgjöf áfram án greiðslu

Svavar Hávarðsson skrifar
Eygló Harðardóttir og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.
Eygló Harðardóttir og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Mynd/Velferðarráðuneytið
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, undirrituðu á miðvikudag endurnýjaðan samning um að Mannréttindaskrifstofan annist lögfræðiráðgjöf við innflytjendur þeim að kostnaðarlausu.

Mannréttindaskrifstofan hefur sinnt slíkri þjónustu undanfarin ár á grundvelli samnings við velferðarráðuneytið og er samningurinn endurnýjaður í ljósi góðrar reynslu af verkefninu, segir í frétt á vef ráðuneytisins.

Mannréttindaskrifstofa Íslands fær fimm milljónir króna til verkefnisins samkvæmt samningnum og er fénu fyrst og fremst ætlað að standa straum af kostnaði vegna lögfræðiráðgjafar og túlkaþjónustu.

Fengin reynsla sýnir að veruleg þörf er fyrir þessa þjónustu. Á síðasta ári veitti Mannréttindaskrifstofan 528 viðtöl á grundvelli samningsins, ýmist á skrifstofu samtakanna, í gegn um síma eða Skype.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×