Viðskipti innlent

Fá ekki rými í Leifsstöð: Kaupmenn ætla með málið fyrir dómstóla

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Icewear fékk ekki verslunarrými í Leifsstöð.
Icewear fékk ekki verslunarrými í Leifsstöð.
Eigendur fyrirtæksins Drífu ehf, sem rekur verslanir sem selja fatnað undir merkinu Icewear, ætla að leita til dómsstóla eftir að kæru fyrirtækisins sem sneri að samkeppni um verslunarrými í Leifsstöð var vísað frá af kærunefnd útboðsmála.

„Já, það er ljóst að eigendurnir þurfa að fara með þetta áfram í dómskerfinu,“ segir Daníel Isebarn, lögmaður fyrirtækisins. Eigendur Drífu kærðu samkeppni Isavia í verslunarrými í Leifsstöð til kærunefndar útboðsmála. Kærunefndin úrskurðaði í málinu í síðustu viku. Nefndin vísaði málinu frá vegna þess að hún taldi að ekki væri eiginlegt útboð að ræða, því Isavia væri að leigja verslunarrými út. Nefndin vísaði frá kröfu eigenda Drífu ehf um að forval útboðsins verði stöðvað tímabundið á meðan málið væri tekið fyrir.

Kærunefndin tók annars ekki efnislega afstöðu í málinu.

Daníel telur að svo virðist sem vanti vettvang í kerfinu þar sem hægt er að kæra sambærileg mál. Vegna þess að enginn slíkur vettvangur fyrirfinnst þurfi eigendur Drífu ehf. fara með málið fyrir dómstóla.

Aðalheiður Héðinsdóttir.
Leynd hvílir yfir ferlinu

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hún gagnrýndi þessa samkeppni. Hún varpaði fram þeirri spurningu hvort að erlendum fyrirtækjum væri fært verslunarými í Leifsstöð á silfurfati. Að mati Aðalheiðar er verslunarrýmið í Leifsstöð eitt það besta hér á landi, því þrjár milljónir manns færu um völlinn á ári hverju.

Fyrirtækin Kaffitár og Drífa ehf eru í svipuðum sporum, því hvorugt fyrirtækið fékk tilboð sitt í verslunarrými samþykkt.

„Fyrirtæki mínu hefur verið tilkynnt að það sé ekki fyrsti valkostur þegar kemur að samningaviðræðum við Isavia. Ég óskaði eftir upplýsingum um hverjir tóku þátt í samkeppninni, sundurliðun stigagjafar og við hvað var stuðst við stigagjöf,“ skrifaði Aðhalheiður og bætti við.

„Svar barst á ensku: Eingöngu stigagjöf Kaffitárs, engar skýringar, enginn samanburður, óskiljanleg samhengislaus stigagjöf.

Ég sætti mig við að verða undir í samkeppni, en ekki að leikreglur í svo mikilvægri keppni séu bæði óskýrar og ógegnsæjar. Leynd skapar tortryggni, ýtir undir tilfinningu um að ekki sé farið að settum reglum og eitthvað þurfi að fela. Trúverðugleika skortir í þessari samkeppni. Jafnvel Samtök iðnaðarins mega ekki sjá samkeppnislýsinguna. Hvað þolir ekki dagsbirtu?

Eftir samtöl við marga sýnist mér að til standi að gera stóran samning við alþjóðlegt stórfyrirtæki sem rekur tæplega þrjú þúsund verslanir og sérhæfir sig í rekstri í flugstöðvum. Frá þessu á ekki segja fyrr en samningar eru undirritaðir. Þá á ekki að gefa skýringar.

Ég tel mikilvægt að fyrirtæki sem stunda rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar séu íslensk og það sé skammsýni þegar fulltrúar ríkisins halda fram að slíkt skipti engu máli. Alþjóðleg stórfyrirtæki greiða skatta þar sem þeir eru lægstir og það skapar þeim samkeppnisforskot.“

Tæknilegt tilboð og fjárhagslegt

Aðalheiður gagnrýndi einnig að samkeppnisgögn hafi verið á ensku. Í úrskurði kærunefndarinnar kemur fram að samkeppnin hafi verið tvíþætt. Annars vegar það sem kallast „Request for Qualification“ og hinsvegar „Request for Proposal“. Á fyrra stiginu var kannað hvort „þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira“ sem Isavia setti til þátttöku í samkeppninni.

„Þeim sem uppfylltu kröfur var svo boðið að taka þátt í seinna stigi forvalsins, sem nefndist „Request for Proposal“, og skila inn tvöföldu tilboði; annars vegar tæknilegu tilboði og hins vegar fjárhagslegu,“ segir í úrskurði kærunefndar.

Isavia mun aðeins hafa tekið fjárhagsleg tilboð fyrirtækja til skoðunnar sem stóðust tæknilega hlutann. Í úrskurðinum kemur fram að Drífa ehf hafi komist í gegnum fyrra stig forvalsins og hafi verið boðið að skila inn tilboðum í seinni hlutanum. Það var gert, en í ágústlok var eigendum fyrirtækisins tilkynnt að fyrirtækið fengi ekki verslunarrými í Leifsstöð.

Kæra Drífu ehf „byggir að meginstefnu á því að valforsendur í hinu kærða forvali hafi verið of matskenndar og óljósar, að hæfisskilyrðum og valforsendum hafi verið blandað saman með ólögmætum hætti og að rökstuðningur varnaraðila um val á tilboði hafi verið ófullnægjandi og í andstöðu við ákvæði laga um opinber innkaup.“


Tengdar fréttir

Vilja opna stað í Leifsstöð

Eigendur Joe and the Juice á Íslandi hafa óskað eftir veitingarými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þeir undirbúa sig nú, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, undir samningaviðræður við Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll. Fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir eru stærstu eigendur fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×