Innlent

Fá ekki leiðréttingu 1. desember

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Tollverðir eru vonsviknir yfir meintum vanefndum.
Tollverðir eru vonsviknir yfir meintum vanefndum. Fréttablaðið/E. Ól.

Tollvarðafélag Íslands segir samninganefnd ríkisins nú hafa tilkynnt að loforð um að afturvirkar launaleiðréttingar komi til útborgunar 1. desember verði ekki efnt.

„Þrátt fyrir að hafa lofað þessu fyrir undirritun samnings kemur nú fram rétt fyrir launakeyrslu að þetta gangi ekki upp,“ segir í tilkynningu Tollvarðafélagsins sem kveður samninganefnd ríkisins hafa beðið fram á síðustu stundu með að tilkynna þetta.

Á meðan hafi félagsmenn kosið um samninginn til að vera innan tímaramma sem samninganefnd hafi sett til að leiðréttingin yrði greidd út 1. desember.

„Viðbrögð tollvarða við þessum breytingum eru mjög hörð, en margir höfðu reiknað með þessum leiðréttingum fyrir hátíðarnar. Tilraunir TFÍ til þess að fá þessu breytt hafa engan árangur borið og svörin verið á þann hátt að því miður sé þetta staðreyndin. TFÍ lítur svo á að hér sé algert viljaleysi til að standa við gefin loforð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×