Lífið

Eyrún Huld flytur norður

Ætla að flytja til höfuðstaðar Norðurlands þar sem Eyrún hyggst kenna í Menntaskóla Akureyrar.
Ætla að flytja til höfuðstaðar Norðurlands þar sem Eyrún hyggst kenna í Menntaskóla Akureyrar.
„Ég er að flytjast norður og taka við kennarastöðu hjá MA,“ segir Eyrún Huld Haraldsdóttir. Nafn Eyrúnar Huldar var á allra vörum þegar þjóðin horfði á sigurgöngu Magna Ásgeirssonar í Rock Star: Supernova í fyrrasumar.

Síðan tóku við timburmenn frægðarinnar og uppúr slitnaði hjá parinu eins og alþjóð veit. Eyrún hefur hins vegar látið lítið fyrir sér fara og einbeitt sér að uppeldi sonarins, Marínós Bjarna, sem nú er að verða tveggja ára.

Þau hafa búið á Bauganesi í Skerjarfirðinum þar sem Magni er reyndar enn skráður til húsa.

„Við höfum ekki haft tíma til að breyta þessu,“ segir Eyrún en hún nýtur sumarsins á Héraði þar sem sólin skín í heiði eins og annars staðar á landinu. Fréttablaðið hafði haft af því spurnir að hún og Magni væru jafnvel að taka saman aftur en Eyrún vildi lítið tjá sig um það.

„Við erum mjög góðir vinir enda ekki annað hægt. Við eigum barn saman,“ segir Eyrún.

Eyrún hefur notið lífsins það sem af er sumri ef marka má bloggsíðu hennar. Fór meðal annars til Kaupmannahafnar og hlýddi þar á sjálft rokkgoðið Eddie Vedder sem er í miklu uppáhaldi hjá henni.

„Hef horft á ófáa tónleikana með kappanum í imbanum en hann heillaði mig alveg upp á nýtt,“ skrifar Eyrún. Og á eftir fylgdu tónleikar með Damien Rice á Vega, litlum tónleikastað í miðbæ borgarinnar.

Nú taka hins vegar við búferlaflutningar til Akureyrar, höfuðstaðar Norðurlands, frá skarkala höfuðborgarinnar þar sem akureyskir menntskælingar verða teknir í íslenskukennslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×