Innlent

Eyjólfur ekki sendur út á sunnudag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Eyjólfur ásamt móður sinni Elvu Christinu.
Eyjólfur ásamt móður sinni Elvu Christinu. vísir/anton brink
Ekki er gert ráð fyrir að Eyjólfur, fimm ára drengur sem senda á til Noregs, verði sendur þangað út næstkomandi sunnudag líkt og til stóð. Frá þessu greinir amma hans, Helena Brynjólfsdóttir á Facebook.

Hæstiréttur komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að móður drengsins, Elvu Christinu, bæri að afhenda hann norskum barnaverndaryfirvöldum fyrir komandi sunnudag, 4. desember.

Fjallað hefur verið ítarlega um málið á Vísi undanfarnar vikur en það snýst um það að Elva Christina var svipt forræði yfir syni sínum úti í Noregi. Til stóð og stendur að senda hann í fóstur til vandalausra í Noregi. Amma hans og mamma, Elva og Helena, flúðu til Íslands í kjölfar þess úrskurðar.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir mál Eyjólfs enn í gangi, sem sé ástæða þess að hann verði ekki sendur af landi brott á sunnudag.

„Það eru enn samræður í gangi á milli Barnaverndar í Noregi og okkar og mér finnst ekki líklegt að norsk barnavernd fari fram á að dómurinn verði fullnustaður, og barnið þar með afhent, á meðan þær samræður eru í gangi og á meðan við erum að reyna að finna leiðir í málinu,“ segir Bragi í samtali við Vísi, og bætir við að málið sé flókið úrlausnar, en að allra leiða verði leitað til að þurfa ekki að senda drenginn út.

Faðir Eyjólfs, Sigurjón Elís Atlason, hefur einnig verið að vinna í málinu, en hann sagðist í samtali við DV í október ætla í mál gegn norsku barnaverndinni verði Eyjólfur afhentur norskum barnaverndaryfirvöldum.


Tengdar fréttir

Reyna allt svo Eyjólfur verði ekki sendur burt

Íslensk barnaverndaryfirvöld reyna nú að ná samningum við norsk yfirvöld svo íslenski drengurinn Eyjólfur Kristinn Elvuson verði ekki sendur til Noregs á fósturheimili.

Viðtal við Elvu Christinu: „Þetta er að brjóta mig niður“

Elva Christina, segir það vera skelfilega tilfinningu að norsk barnaverndaryfirvöld geti krafist þess að fá barnið hennar sent til Noregs í fóstur. Elva sem áður var í neyslu segist hafa snúið við blaðinu og vonar að hún fái að hafa drenginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×