Sport

Eygló Ósk setti tvö met í sama sundi á HM | Bryndís í 29. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir var kát eftir sundið.
Eygló Ósk Gústafsdóttir var kát eftir sundið. Mynd/Fésbókarsíða SSÍ
Eygló Ósk Gústafsdóttir hjálpaði ekki aðeins íslensku boðssundssveitinni að setja landsmet í 4 x 50 fjórsundi á HM í 25 metra laug í Windsor í Kanada í dag heldur setti hún einnig sjálf Íslandsmet í sundinu.

Eygló Ósk setti Íslandsmet í 50 metra baksundi þegar hún synti fyrsta sprett á tímanum 27,40 sekúndum og bætti þar með gamla metið sitt og Ingibjargar Kristínar Jónsdóttur um 5/100 úr sekúndu.

Ingibjörg setti metið fyrst fyrir fimm árum síðan en Eygló Ósk jafnaði það svo á Íslandsmeistaramótinu í 25 metra laug fyrir tveimur árum síðan. Þær voru ánægðar með sig stúlkurnar að sundi loknu samkvæmt fésbókarsíðu Sundsambands Íslands.

Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Bryndís Rún Hansen og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir syntu boðsundið á tímanum 1:49,41 mínútu og enduðu í fjórtánda sæti af tuttugu sveitum. Gamla landsmetið var 1:57,06 mínútur og var 12 ára gamalt.

Bryndís Rún Hansen úr Óðni synti 100 metra skriðsund á HM í dag og kom í marki á tímanum 54,44 sekúndum. Bryndís bætti tímann sinn töluvert og hjó þar með nærri Íslandsmetinu í greininni sem Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR á og er 54,44 sekúndur en það var sett á ÍM25 2010.

Bryndís Rún lenti í 29 sæti í greininni en til þess að komast í milliriðla þurfti Bryndís að synda undir 53,78 sekúndum sem franska stúlkan Marie Wattel gerði og var síðust inn í undanúrslitin.


Tengdar fréttir

Davíð Hildiberg og Kristinn í samliggjandi sætum á HM

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson og Kristinn Þórarinsson tóku báðir þátt í undanrásum í 100 metra baksundi á fyrsta degi á Heimsmeistaramótinu í 25 metra laug sem hófst í dag í Windsor í Kanada.

Eygló Ósk komst ekki í undanúrslit

Íþróttamaður ársins, Eygló Ósk Gústafsdóttir, komst ekki í undanúrslit í 100 metra baksundi í dag á Heimsmeistaramótinu í 25 metra laug sem fram fer þessa dagana í Windsor í Kanada.

Annað Íslandsmet hjá Hrafnhildi

Hrafnhildur Lúthersdóttir bætti Íslandsmetið í 50 metra bringusundi öðru sinni á HM í 25 metra laug í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×