Innlent

Eygló ætlar í varaformanninn tapi Sigmundur Davíð formannsslagnum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Vísir/Ernir
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur tilkynnt að hún hyggist bjóða sig fram til varaformanns Framsóknarflokksins ef að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi formaður flokksins, nái ekki endurkjöri. Eygló tilkynnti þetta í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni.

„Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum erfiða tíma á síðustu vikum og mánuðum. Fjölmargir flokksmenn hafa kallað eftir breytingum á forystu flokksins og hefur því kalli nú verið svarað. Eftir vandlega íhugun hef ég tekið þá ákvörðun að verði nýr formaður kjörinn á flokksþinginu mun ég bjóða mig fram sem varaformaður Framsóknarflokksins,“ skrifar Eygló.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, sagði í hádegisfréttum RÚV í dag að hún styðji Sigurð Inga Jóhansson forsætisráðherra til formennsku. „Ég styð Sigurð Inga Jóhannsson og ég vona að hann nái árangri á flokksþinginu,“ sagði Silja Dögg.

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, birti á Facebook síðu sinni fyrr í dag stuðningsyfirlýsingu við Sigurð Inga Jóhannsson og Haraldur Einarsson, þingmaður flokksins í suðurkjördæmi, hefur einnig lýst því yfir að Sigurður Ingi sé traustur og öflugur leiðtogi.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×