Enski boltinn

Eyddu 550 milljörðum í nýja leikmenn á síðasta ári

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ángel di María kostaði Manchester United fúlgur fjár.
Ángel di María kostaði Manchester United fúlgur fjár. vísir/getty
Knattspyrnufélög í heiminum eyddu 4,1 milljarði dala eða jafnvirði tæplega 550 milljarða íslenskra króna í nýja leikmenn á síðasta ári, samkvæmt Alþjóðaknattspyrnusambandinu, FIFA.

BBC greinir frá þessu, en þetta er í fyrsta skipti sem knattspyrnufélög heimsins hafa samtals eytt meira en fjórum milljörðum dala. Heildaraukning frá árinu 2013 er 2,1 prósent.

Ensku félögin eyddu mest eða 1,2 milljörðum dala (160 milljörðum króna). Það er meira en fjórðungur heildarupphæðarinnar. Þá eyddu ensku félögin 67 prósent meira heldur en spænsku félögin sem eyddu næst mest.

Auknar sjónvarpstekjur hafa gefið ensku félögunum visst forskot þegar kemur að því að lokka til sín skærustu fótboltastjörnum heimsins, en byrjað er að selja réttinn á ensku úrvalsdeildinni fyrir tímabilið 2016/2017-2018/2019.

Búist er við að nýi sjónvarpssamningurinn verði í heildina verðmætari en 600 milljarða króna samningurinn sem gerður var síðast.

Umboðsmenn hafa notið góðs af aukinni eyðslu ensku liðanna, en hvergi annars staðar fá þeir jafn mikið greitt. Ríflega 87 milljónir dala af þeim 236 sem umboðsmönnum var greitt á síðasta ári komu frá enskum félögum.

„Enski markaðurinn drottnar yfir öðrum þegar kemur að eyðslu,“ segir Mark Goddard, starfsmaður í félagaskiptanefn FIFA, við BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×