Erlent

Evrópuþingið samþykkir framkvæmdastjórn Juncker

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker mun taka við starfi forseta framkvæmdastjórnar ESB af José Manuel Barroso í byrjun næsta mánaðar.
Jean-Claude Juncker mun taka við starfi forseta framkvæmdastjórnar ESB af José Manuel Barroso í byrjun næsta mánaðar. Vísir/AFP
Evrópuþingið samþykkti í morgun nýja framkvæmdastjórn Jean-Claude Juncker sem mun taka til starfa í byrjun næsta mánaðar.

Nýir framkvæmdastjórar hafa verið yfirheyrðir af þingmönnum Evrópuþingsins síðustu vikur. Juncker gerði nokkrar breytingar á framkvæmdastjórninni í kjölfar andstöðu þingmannanna, en framkvæmdastjórnin í heild sinni þarf að vera samþykkt af þinginu áður en hún getur tekið til starfa.

423 þingmenn samþykktu framkvæmdastjórnina, 209 greiddu atkvæði gegn henni og 67 sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Framkvæmdastjórnin á frumkvæði að nýrri löggjöf sambandsins, gætir sameiginlegra hagsmuna ESB, stýrir daglegri framkvæmd á stefnum sambandsins og ráðstöfun á fjármunum, auk þess að hafa eftirlit með beitingu sáttmála og afleiddum reglum sambandsins.

Hvert og eitt aðildarríki sambandsins á einn fulltrúa í framkvæmdastjórninni sem er þó ætlað að gæta hagsmuna sambandsins í heild, en ekki einstaka aðildarríkja.

Juncker sagði í ræðu sinni að það væri „aumkunarvert“ að honum hafi ekki tekist að vera með fleiri en níu konur í framkvæmdastjórn sinni, þrátt fyrir að hann hafi sérstaklega beint þeim orðum til aðildarríkja að tilnefna konur. Þingmenn klöppuðu sérstaklega þegar Juncker lét orðin falla.

„Ég skammast mín svolítið fyrir þetta þar sem Lúxemborg tilnefndi ekki konu, en ég mun sjálfur ekki geta skipt um kyn á næstunni,“ sagði Juncker sem gegndi embætti forsætisráðherra Lúxemborgar um margra ára skeið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×