Viðskipti erlent

Evrópusambandsríki verða undanþegin málmtollum Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkisstjórn Trump bar fyrir sig þjóðaröryggissjónarmið þegar tilkynnt var um verndartolla á innflutt stál og ál.
Ríkisstjórn Trump bar fyrir sig þjóðaröryggissjónarmið þegar tilkynnt var um verndartolla á innflutt stál og ál. Vísir/AFP
Verndartollar sem ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta ætlar að leggja á innflutt stál og ál munu ekki ná til ríkja Evrópusambandsins og sex önnur, að minnsta kosti til að byrja með. Tollarnir eiga að taka gildi á morgun.

Robert Lighthizer, viðskiptafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sagði þingnefnd í dag að Trump hefði ákveðið að setja tollana „í bið“ á meðan frekari viðræður færu fram, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. Um er að ræða 25% toll á innflutt stál og 10% á ál.

Auk ESB-ríkjanna verða Argentína, Ástralía, Brasilía, Kanada, Mexíkó og Suður-Kórea undanþegin verndartollunum. Fulltrúa ESB og fleiri ríkja höfðu hótað hörðum mótaðgerðum.

Þetta þýðir að innan við þriðjungur stálinnflutnings Bandaríkjanna verði háður verndartollunum. Efnahagsráðgjafi Trump sagði af sér vegna verndartollana.

Búist er við því að Trump tilkynni um fimmtíu milljarða dollara tolla á kínverskar vörur í dag til að refsa kínverskum stjórnvöldum fyrir hugverkastuld. Þá verða takmörk sett á fjárfestingar Kínverja í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×