Skoðun

Evrópudagur sjúkraliða 26. nóvember

Kristín Á. Guðmundsdóttir skrifar
Hinn 26. nóvember ár hvert er haldinn hátíðlegur Evrópudagur sjúkraliða. Markmið dagsins er að vekja athygli á störfum sjúkraliða hvar sem þeir starfa og minna á nauðsyn slíkrar fagstéttar innan heilbrigðiskerfisins sem einnar af undirstöðum þess. Fagstétt sem alltaf hefur lagt metnað sinn í að sinna störfum sínum af alúð og fagmennsku. Sjúkraliðar starfa á öllum heilbrigðisstofnunum landsins og hjúkrunardeildum sjúkrahúsa auk fjölda þjónustudeilda, hjúkrunarheimila, heimahjúkrunar, félagsþjónustu, læknastofa og skóla svo eitthvað sé nefnt.

Sjúkraliðar starfa oft við mjög erfiðar aðstæður, bæði líkamlega og andlega. Störf þeirra kalla á sérstaka athygli þeirra er varðar líðan fólks, bæði sýnilega og ósýnilega.

Mörg störf sjúkraliða krefjast mikils sjálfstæðis og eru þeir oft einir á vettvangi, samanber t.d. störf í heimahjúkrun. Þar mæta þeir miklum og krefjandi aðstæðum þar sem hættur geta skapast hvort sem er í akstri sem þeir þurfa að takast á við, vinnu sinnar vegna í hvaða veðri sem er, oft margra kílómetra leiðir, ásamt allskyns aðstæðum í heimahúsum hjá fárveikum einstaklingum.

Á hjúkrunarheimilum er mikið lagt upp úr því að skjólstæðingum sé sinnt af kostgæfni en oft fer minna fyrir því að hugað sé að andlegri og líkamlegri líðan sjúkraliða sem oft starfa við mikla undirmönnun þar sem fagfólk er af skornum skammti.

Undanfarin ár og mánuðir hafa sannað ótrúlega aðlögunarhæfni sjúkraliða. Þetta má m.a. sjá í þeirri þrautseigju sem stéttin hefur sýnt á niðurskurðartímum. Sjúkraliðar hafa mátt þola kvíða, álag, ósanngirni, minnkaða starfsprósentu, uppsagnir og gríðarlegar breytingar. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir ýmsa kvilla sem hrjá stéttina, andlega og líkamlega, meðal annars stoðkerfisvandamál vegna mikils álags í vinnu, hafa sjúkraliðar haldið uppi miklum gæðum í þeirri hjúkrun sem þeir veita skjólstæðingum sínum.

26. nóvember á að minna stjórnendur heilbrigðisstofnana á að huga vel að sjúkraliðum sem fagstétt þar sem reynsla þeirra og fagleg vinnubrögð eru stofnununum mjög dýrmæt.

26. nóvember á einnig að minna sjúkraliða á að halda áfram að efla sig faglega og sýna í verki hvers þeir eru megnugir.

26. nóvember er haldinn hátíðlegur um allt land með margvíslegum hætti og m.a. gefa sjúkraliðar endurskinsmerki með það í huga að allir eigi að vera sýnilegir, ekki síst nú í mesta skammdeginu.

26. nóvember er haldinn í öllum aðildarlöndum EPN – The European Council of Practical Nurses – en Sjúkraliðafélag Íslands er eitt af stoltum aðildarfélögum þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×