Erlent

Evrópa fjármagnar hryðjuverk með greiðslu lausnargjalda

Atli Ísleifsson skrifar
New York Times fullyrðir að stjórnvöld í Frakklandi, Sviss, Spáni og Austurríki hafi greitt mannræningjum lausnargjald í skiptum fyrir frelsi fólks sem hafi verið rænt.
New York Times fullyrðir að stjórnvöld í Frakklandi, Sviss, Spáni og Austurríki hafi greitt mannræningjum lausnargjald í skiptum fyrir frelsi fólks sem hafi verið rænt. Vísir/Getty
Ríkisstjórnir Evrópuríkja hafa greitt jafnvirði 125 milljónir Bandaríkjadala í lausnargjöld til liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda síðustu sex árin.

Í frétt New York Times segir að evrópskar ríkisstjórnir fjármagni þannig starfsemi hryðjuverkasamtakanna með því að greiða háar fjárhæðir til að tryggja örugga heimkomu fólks sem hefur verið rænt af liðsmönnum Al-Qaeda.

Blaðið segir meðal annars frá fulltrúa þýskra stjórnvalda sem fór til Malí árið 2003 með ferðatösku með fimm milljónum evra í reiðufé. Hafi opinber skýring ferðarinnar verið sú að peningarnir ættu að fara í þróunaraðstoð, en í raun og veru fóru peningarnir í að borga mannræningjum sem höfðu rænt 32 Evrópumönnum.

New York Times fullyrðir að stjórnvöld í meðal annars Frakklandi, Sviss, Spáni og Austurríki hafi greitt mannræningjum lausnargjald í skiptum fyrir frelsi fólks sem hafi verið rænt.

Engir fulltrúar stjórnvalda í umræddum ríkjum hafa staðfest að þau hafi greitt lausnargjald til mannræningja. Hefur blaðið upplýsingar sínar frá nafnlausum heimildarmönnum úr ráðuneytum eða frásagnir þeirra sem var rænt af því hvernig þeir sluppu.

Bandaríkin hafa lengi talað fyrir því að ekki skuli semja við hryðjuverkamenn og að ekki skuli greiða lausnargjöld til liðsmanna hryðjuverkasamtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×