Enski boltinn

Everton vann Man. United og fylgir Arsenal sem skugginn - myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Everton vann 2-0 sigur á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld í endurkomu David Moyes, fyrrum knattspyrnustjóra félagsins, á Goodison Park.

Everton er því aftur bara einu stigi á eftir Arsenal í baráttunni um fjórða og síðasta sætið inn í Meistaradeildina en félagið setti félagsmet í sigrum í úrvalsdeildinni með því að landa þeim tuttugasta á leiktíðinni.

Arsenal vann 3-0 útisigur á Hull fyrr í dag og setti pressu á Everton-liðið en lærisveinar Roberto Martinez sýndu David Moyes hvað þeir hafa vaxið og dafnað síðan að hann yfirgaf félagið síðasta sumar og tók við Manchester United.

Manchester United tapaði þarna ellefta deildarleiknum sínum á tímabilinu en liðið er í sjöunda sæti nú 23 stigum á eftir toppliði Liverpool og 13 stigum frá síðasta sætinu inn í Meistaradeildina.

Everton skoraði bæði mörkin í fyrri hálfleiknum. Það fyrra skoraði Leighton Baines út vítaspyrnu á 28. mínútu eftir að Phil Jones varði skot Romelu Lukaku með hendi.

Kevin Mirallas skoraði síðan annað markið á 43. mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Seamus Coleman en Coleman átti frábæran leik í dag.

Everton var með góð tök á leiknum í seinni hálfleiknum og gat auðveldlega bætt við mörkum en þau urðu ekki fleiri.

Wayne Rooney fékk frábært færi til að skora á móti sínu uppeldisfélagi í lokin en Tim Howard varði glæsilega frá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×