Erlent

Everest-fjall seig í skjálftanum

Atli Ísleifsson skrifar
Grunnbúðir Everest-fjalls.
Grunnbúðir Everest-fjalls. Vísir/AFP
Ratsjármyndir frá hamfarasvæðunum í Nepal sýna að svæði í kringum höfuðborgina Katmandú hafi risið um 90 sentimetra í skjálftanum, en Everest-fjall sigið um rúma tvo sentimetra.

Tim Wright, jarðeðlisfræðingur við Leeds háskóla í Bretlandi, segir í samtali við Washington Post að þrátt fyrir að höfuðborgin liggi talsvert frá skjálftamiðjunni þá hafi jarðrisið verið mest um fimmtán kílómetrum frá borginni. „Það er ein af ástæðum þess að Katmandú varð svo illa úti í skjálftanum.“

Á sama tíma benda myndir til þess að hæsta fjall jarðar hafi minnkað um 2,5 sentimetra í skjálftanum. Þrátt fyrir það þá eru fjöllin í Himalaja-fjallgarðinum enn að rísa. Rannsóknir benda margar til að sum fjöllin rísi um rúman sentimetra á ári þar sem Indlandsflekinn og Evrasíuflekinn rekast saman.

Skjálftinn sem varð þann 25. apríl mældist 7,8 að stærð og er sá öflugasti í landinu í rúm áttatíu ár.

Yfirvöld í Nepal hafa nú þegar staðfest að rúmlega sjö þúsund manns hafi farist í skjálftanum þó að óttast sé að sú tala kunni að hækka í um 15 þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×