Viðskipti innlent

EVE Online í hópi þeirra bestu hjá Sameinuðu þjóðunum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
EVE Online er fjölspilunarleikur á netinu. Leikurinn hóf göngu sína árið 2003 og eru áskrifendur nú yfir 500 þúsund.
EVE Online er fjölspilunarleikur á netinu. Leikurinn hóf göngu sína árið 2003 og eru áskrifendur nú yfir 500 þúsund. Mynd/CCP
Netleikurinn EVE Online, sem tölvuleikjafyrirtækið CCP gefur út, er í hópi fimm sigurvegara í flokki afþreyingar og leikja í samkeppni Sameinuðu þjóðanna um bestu stafrænu lausnirnar, World Summit Award 2013. Viðurkenningin hefur mikla þýðingu fyrir hugbúnaðariðnaðinn hér á landi að mati Jóhanns Péturs Malmquists, prófessors í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og umsjónarmanns keppninnar hér á landi.

Samkeppnin World Summit Award hefur verið haldin á vegum Sameinuðu þjóðanna annað hvert ár frá árinu 2003. Markmið keppninnar er að verðlauna framúrskarandi lausnir í upplýsingatækni sem nýst geta fólki um allan heim og jafnframt að styðja við þróun upplýsingasamfélagsins og útbreiðslu þess. Samkeppnin er opin bæði einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Alls bárust tilnefningar um rúmlega 460 verkefni víðs vegar að úr heiminum í keppnina í ár, þar af sex frá Íslandi. Alþjóðleg dómnefnd, sem skipuð er sérfræðingum í upplýsingatækni, valdi svo fimm bestu verkefnin í hverjum flokki, samtals 40 lausnir, og eins og fyrr segir var EVE Online meðal bestu lausna í flokki afþreyingar og leikja.

Í viðurkenningarskyni býðst forsvarsmönnum CCP að sækja þriggja daga ráðstefnu World Summit Award á Srí Lanka dagana 23.-26. október næstkomandi. Þar verða sigurvegarar í hverjum flokki krýndir við hátíðlega athöfn og aðstandendum allra verkefnanna býðst að kynna þau fyrir stórum hópi sérfræðinga og leita samstarfsaðila og bakhjarla.

Jóhann Pétur segir árangur EVE Online hafa mikla þýðingu því hann beini sjónum manna úti í heimi að Íslandi og íslensku hugviti. Hann bendir enn fremur á að þörf sé á að mennta fleira fólk fyrir hugbúnaðargeirann. Nemendum í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði hefur fjölgað umtalsvert síðustu ár og nú eru um sex hundruð fyrsta árs nemar í þessum greinum í háskólum landsins svo það stefni í rétta átt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×