Erlent

Eurovision: Úkraínumenn og Rússar hafna tillögu EBU

Atli Ísleifsson skrifar
Julia Samoilova er keppandi Rússa í Eurovision að þessu sinni.
Julia Samoilova er keppandi Rússa í Eurovision að þessu sinni. Vísir/AFP
Bæði Úkraínumenn og Rússar hafa hafnað tillögu Samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um að rússneski keppandinn, Julia Samoilova, flytji lag sitt í gegnum gervihnött á síðara undanúrslitakvöldi Eurovision sem haldin verður í Kíev í maí.

Yfirvöld í Úkraínu greindu frá því fyrr í vikunni að rússnesku söngkonunni Julia Samoilova hafi verið meinað að ferðast til landsins þar sem hún hafi komið fram á Krímskaga árið 2015, en Rússar innlimuðu landsvæðið ári fyrr.

EBU sagði ákvörðun Úkraínumanna mikil vonbrigði en að fara yrði að landslögum í því landi sem hýsti keppnina hverju sinni. Samtökin myndu þó eiga samtal við úkraínsk yfirvöld til að finna lausn á málinu. Í gær var svo tilkynnt um þá hugmynd að Samoilova myndi flytja lag sitt í gegnum gervihnött. Það yrði í fyrsta sinn í sögu keppninnar sem það yrði gert.

Talsmenn rússneska sjónvarpsins hafa nú hafnað tillögu EBU og segja að skipuleggjendur keppninnar verði að tryggja að söngkonan megi flytja lag sitt á sviðinu, líkt og reglur keppninnar kveða á um.

Í frétt SVT kemur fram að samtal EBU og úkraískra yfirvalda standi enn yfir þar sem EBU vonast til að allir keppendur geti tekið þátt í keppninni í Kíev í maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×